Málþing um umhverfisvænni mötuneyti 10. maí og nýtt fræðsluefni fyrir mötuneyti

Þann 10. maí næstkomandi stendur teymi hringrásarhagkerfis hjá Umhverfisstofnun fyrir málþingi um umhverfisvænni mötuneyti. Málþingið verður öllum opið og streymt í gegnum Teams milli 14:00 og 15:00 á Facebook-síðu Umhverfisstofnunar. Hlekkinn má finna hér. 

Við munum hlýða á fjögur áhugaverð erindi sérfræðinga, rekstraraðila og neytenda og munu erindin snerta á kolefnisspori matvæla, matarsóun, umbúðanotkun, Svansvottun mötuneyta, upplifun starfsfólks af grænmetismiðuðu mötuneyti og ýmsu fleiru.

Tilefni viðburðarins eru nýútgefnar leiðbeiningar Umhverfisstofnunar um umbúðanotkun í mötuneytum og hvernig minnka má matarsóun. Efnið er öllum opið til niðurhals og útprentunar, við vekjum sérstaka athygli á veggspjöldum sem setja meginatriði leiðbeininganna fram á einfaldan hátt og hægt er að nálgast á þremur tungumálum; íslensku, ensku og pólsku. Bæði leiðbeiningarnar og veggspjöldin má nálgast undir Vinnugögn hér á heimasíðunni, og undir flokknum Kaffihús og eldhús. Því má einnig hlaða niður með því að ýta á þessa hlekki:

Eins og þátttakendur Grænna skrefa þekkja snýr stór hluti aðgerðanna að matarneyslu starfsmanna og starfsemi eldhúsanna og þessi viðburður er ekki síst hugsaður til að styðja við mötuneyti, eldhús og veitingarekstur sem þjónusta ríkisaðila. Aðrir aðilar sem viðburðurinn gagnast eru mötuneyti sem rekin eru af sveitarfélögum, mötuneyti vinnustaða á einkamarkaði, matsali hótela og önnur veitingahús.

Við vonumst til að sjá sem flest þann 10. maí kl. 14:00 í gegnum Teams. Hægt er að lesa frekar um fyrirlesarana og efnistök hér og opið verður fyrir spurningar að erindum loknum.