Stóri plokkdagurinn verður 24. apríl

Sunnudaginn 24. apríl næstkomandi er Stóri plokkdagurinn sem haldinn er af hópnum Plokk á Íslandi. Við hvetjum ríkisstofnanir og fyrirtæki til að taka þátt í plokkinu með því að vekja athygli á plokkdeginum og skipuleggja tíma dagana í kringum plokkdaginn þar sem starfsmenn geta plokkað í nærumhverfi vinnustaðarins.

Allir mega stofna viðburði á Stóra Plokkdaginn á samfélagsmiðlum, tengja þá við Plokk á Íslandi, fá merkingar frá Plokk á Íslandi. Hægt er að nálgast merki Plokkdagsins á plokk.is og er öllum heimilt að nota það sér að kostnaðarlausu. Sveitafélög landsins auglýsa sína viðburði og hvernig hægt er að bera sig að með frágang, flokkun eða urðun á hverjum stað fyrir sig.

Rúmlega sjöþúsund og fjögurhundruð manns tilheyra samfélaginu Plokk á Íslandi á Facebook og þessi hópur er kominn á fullt í að plokka bæði í sínu umhverfi. Að sögn plokkara felst fegurðin í plokkinu einna helst í því hversu einfalt það er og hversu auðvelt er að taka þátt. Því fylgir góð og heilbrigð hreyfing, útivera og félagskapur.