Skrifstofur Landspítala fá viðurkenningu fyrir skref 3 og 4

Hulda Steingrímsdóttir, umhverfisstjóri Landspítala, tekur hér við viðurkenningu fyrir skref 3 og 4 frá Birgittu Steingrímsdóttur, Umhverfisstofnun.

Í ágúst síðastliðnum lauk Landspítali Skaftahlíð við innleiðingu á skrefi 3 og 4. Vegna Covid fór fjarúttekt ekki fram fyrr en í október og afhending núna í nóvember. Á Landspítala hefur verið unnið markvisst að umhverfismálum frá árinu 2012 og hefur innleiðing Grænu skrefanna gengið hratt og örugglega fyrir sig, en spítalinn skráði sig til leiks í verkefnið í byrjun árs. Þrátt fyrir að flestar aðgerðir væru nú þegar uppfylltar gafst tækifæri til að skerpa á ýmsum hlutum, en t.a.m var komið upp flokkun fyrir lífrænan úrgang á kaffistofum sem ekki hafði verið til staðar áður. Fróðlegt verður að sjá hvort það komi ekki til með að hækka endurvinnsluhlutfall vinnustaðarins. Einnig var farið vel yfir ræsti- og hreinsiefni og passað upp á að einungis séu keypt inn umhverfisvottuð efni.

Í Skaftahlíð er frábær aðstaða fyrir gangandi og hjólandi starfsfólk og gesti, hjólabogar eru fyrir framan afgreiðslu og læst, yfirbyggð hjólaskýli og hjólageymsla standa starfsfólki til boða þar sem hægt er að hlaða rafhjól og hlaupahjól. Búningsherbergi og sturtuaðstaða eru til fyrirmyndar. Starfsfólk hefur aðgang að rafhlaupahjóli og Zipcar til að fara á milli starfsstöðva spítalans eða nota í einkaerindum. Árið 2019 hóf Landspítali tilraunaverkefni þar sem starfsfólki sem skrifar undir samgöngusamning býðst niðurgreitt árskort í strætó. Verkefninu hefur verið vel tekið og fór fjöldi virkra árskorta úr 130 í 540 á árinu. Verkefnið hefur því verið framlengt. Mötuneytið í Skaftahlíð er Svansvottað eins og öll eldhús og mötuneyti spítalans. Starfsfólk skammtar sér sjálft og borgar fyrir matinn eftir vigt í viðleitni til að draga úr matarsóun. Eins og Svansvottun krefur á um er gott framboð af lífrænum matvælum í eldhúsi.

Á vef spítalans má kynna sér umhverfisstarfið þeirra nánar – við mælum með!

Næsta mál á dagskrá er að útfæra 5. skrefið og óskum við Landspítala góðs gengis í þeirri vinnu. Til hamingju með glæsilegan árangur!


Hér má sjá myndir úr Skaftahlíð úr mötuneyti, þar sem áhersla er lögð á lífræn matvæli og minni matarsóun, og frá aðstöðu fyrir starfsmenn sem vilja ferðast til, frá og í vinnu með vistvænum hætti.