Réttar aðgerðir á réttum stað þegar Harpa tekur 2. Græna skrefið

Stundum veltir maður fyrir sér hvaða árangri Grænu skrefin skila fyrir umhverfið í raun og veru. Þessari spurningu var svarað hátt og greinilega þegar Harpa kláraði 2. skrefið á dögunum.

Segja má að réttar aðgerðir hafi verið á réttum stað. Þegar Harpa ákveður að bjóða gestum að flokka á öllum sínum viðburðum, þá skiptir það máli. Árlega eru um 2 milljónir heimsókna í Hörpu og haldnir um 1500 viðburðir. Þegar Harpa sendir bréf til ríflega hundrað birgja til að stuðla að vistvænum innkaupum, þá skiptir það máli. Enda brugðust mörg fyrirtæki við kallinu og vildu gera betur í umhverfismálum. Þegar bygging með þúsundum ljósa ákveður að LED væðast, þá skiptir það máli. Það dugar í raun ekkert minna en forsíðufrétt til að gera peruskiptunum skil.

Allt sem hefur verið nefnt eru aðgerðir í Grænu skrefunum. Stærð og mikilfengleiki Hörpu gerir það að verkum að allar þessar aðgerðir og áhrif þeirra verða sýnilegri en oft áður, og sanna með því gildi sitt. En aðgerðirnar sanna líka gildi sitt í hvert sinn sem einhver af þeim 125 stofnunum, á meiri en 400 starfsstöðvum, með meira en 13.000 starfsmönnum tekur grænt skref í þágu umhverfissins.

Við óskum Hörpu innilega til hamingju með 2. Græna skrefið og hlökkum til að fylgjast með þeim marsera áfram og gera hluti sem skipta máli.

Sérsmíðuð lausn – flokkunartunnur á hjólum

Bréf sent á ríflega 100 birgja

LED væðing í Hörpu