Húrra! Þjóðskjalasafnið komið með 5. skref

Það eru alltaf mikil gleðitýðindi þegar stofnanir klára öll Grænu skrefin. Á dögunum lauk Þjóðskjalasafnið við fimmta skrefið og við óskum þeim innilega til hamingju með góðan árangur!

Skjalasafn sem nær í hillumetrum frá Reykjavík til Hveragerðis

Ein af þýðingamestu aðgerðunum sem Þjóðskjalasafnið fór í til að ljúka fimmta skrefinu var að setja sér loftlagsstefnu sem fylgdu bæði mælanleg markmið og aðgerðir. Í mörgum stofnunum eru samgöngur stærsti losunarþátturinn, en í stofnun sem hefur það megin hlutverk að varðveita skjöl allra opinberra aðila er það pappírinn sem hefur einna mest áhrif. Það er því mjög mikilvægt að Þjóðskjalasafnið valdi að leggja áherslu á vistvæna varðveislu skjala. Heildarsafnkostur Þjóðskjalasafns er um 45 hillukílómetrar af skjölum. Ef hillunum væri raðað upp hlið við hlið myndi það þýða að þær næðu frá Þjóðskjalasafninu í miðbæ Reykjavíkur og alla leið til Hveragerðis! Að hugað sé að vistspori pappírs og pappírsúrgangs er því heldur betur mikilvægt í stofnun eins og Þjóðskjalasafninu.

Loftlagskvíða breytt í loftlagsstolt

Það er mikið rætt um loftlagskvíða, en við fyllumst loftlagsstolti yfir því að fylgjast með metnaðinum og samstöðunni sem starfsmenn Þjóðskjalasafns hafa sýnt. Sérstakar þakkir á Anna Elínborg Gunnarsdóttir sviðstjóri sem hefur með miklum eldmóði leitt verkefnið áfram. Aðspurð segir hún að þau hafi ákveðið að taka 5. skrefið svona föstum tökum sem lið í samfélagslegri ábyrgð stofnunarinnar og að vera til fyrirmyndar í umhverfis-og loftlagsmálum. Hún telur að lykilinn að góðu gengi hafi verið samstarf og metnaðar starfsmanna, sem hafa unnið markvisst að því að gera Þjóðskjalasafn að umhverfisvænum vinnustað.

Mikilvægt að allir starfsmenn taki þátt alveg frá byrjun

Eins og margir vita er 5. skrefið frábrugðið hinum Grænu skrefunum þar sem það snýr fyrst og fremst að því að tryggja að umhverfisstarfið sé í stöðugri þróun þó að formlegu skrefunum sé lokið. Þau ákváðu að fara alla leið og innleiða ISO 14001 umhverfisstjórnunarkerfið til að tryggja að stofnunin viðhaldi markvissu umhverfisstarfi í daglegum rekstri eftir að hafa uppfyllt öll skrefin. Anna Elínborg viðurkennir að það taki mikinn tíma að innleiða 5. Græna skrefið og umhverfisvottun, en telur að það hjálpi að gera tíma- og verkáætlun í byrjun til að átta sig vel á umfangi verkefnisins. Þau réðu einnig ráðgjafa sem var mikil hjálp við innleiðingu ISO staðalsins.

Anna Elínborg mælir með því að fá sem flesta starfsmenn til að taka þátt í verkefninu frá upphafi. Það hefur sannarlega tekist vel í þeirra tilviki, enda eru margir hverjir eru farnir að taka vistvænan ferðamáta fram yfir einkabílinn, það flokka allir vel og vandlega og huga að því að lágmarka sóun.

Við óskum Þjóðskjalasafninu enn og aftur til hamingju!