Menntaskólinn við Sund fær 3&4 skrefið

Þann 9. desember varð Menntaskólinn við Sund fyrstur allra framhaldsskóla til að hljóta þriðja og fjórða skrefið. Menntaskólinn við Sund var einnig fyrstur allra framhaldsskóla til að skrá sig í Grænu skrefin og hljóta fyrsta og annað skrefið.

 

Menntaskólinn við Sund býr vel að því að þar eru bæði fróðir kennarar og áhugasamir nemendur. Þau taka einnig þátt í Grænfánanum sem hefur mikil samlegðaráhrif við Grænu skrefin í skólahaldi. Sem dæmi má nefna að Umhverfisfræði er skyldufag en þar kynnast nemendur hugtökum úr umhversfræði og nota þekkingu og umræðu til að tengja við sitt nærsamfélag. Menntaskólinn við Sund hefur því sýnt í verki að þátttaka þeirra í Grænu skrefunum snýst ekki einungis um að fylla út gátlista heldur að innleiða breytingar sem hafa raunveruleg áhrif á grundvallarstarfsemi stofnunarinnar.

 

Við óskum Menntaskólanum kærlega til hamingju með þennan áfanga og hlökkum til að halda samstarfinu áfram

 

Á mynd má sjá rektor Menntaskólans við Sund, Má Vilhjálmsson, taka á móti viðurkenningu frá Ásdísi Nínu Magnúsdóttur, sérfræðingi hjá Umhverfisstofnun.

.