Kynningarfundur um loftslagsstefnur ríkisaðila

Umhverfisstofnun býður til kynningarfundar um gerð loftslagsstefnu fyrir ríkisstofnanir og fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins þann 23. september kl. 11-12.

Á fundinum munu sérfræðingar á sviði loftslagsmála og græns samfélags fara yfir skyldu stofnana til að setja sér loftslagsstefnu (sjá 5. gr. c í loftslagslögum) og kynna leiðbeiningar Umhverfisstofnunar þess efnis, en þær má finna á heimasíðu Grænna skrefa. Við hvetjum allar ríkisstofnanir og fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins til þess að senda a.m.k. einn starfsmann sem fer fyrir umhverfisráði/hefur áhuga á að stofna til umhverfisráðs vinnustaðarins ef það er ekki til staðar. Kynningin sjálf verður stutt og góður tími gefinn til að svara spurningum.
Fundardagskrá:
Græn skref og Grænt bókhald – Birgitta Steingrímsdóttir
Leiðbeiningar Umhverfisstofnunar um gerð loftslagsstefnu – Ásdís Nína Magnúsdóttir
Stutt innslög frá ÁTVR, Landsvirkjun og Seðlabanka Íslands – Sigurpáll Ingibergsson, Jóna Bjarnadóttir og Thelma Ýr Unnsteinsdóttir
Spurningar og svör
Loftslagsbreytingar og neikvæð umhverfisáhrif haldast í hendur. Loftslagsstefnu Stjórnarráðsins, stofnana þess og fyrirtækja í meirihlutaeigu ríkisins er ætlað að tryggja að fyrrgreindir aðilar vinni markvisst að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og vinni að kolefnisjöfnun í starfsemi sinni. Mikilvægt er að Stjórnarráðið og ríkisaðilar sýni frumkvæði og fordæmi með því að uppfylla aðgerð um Græn skref í loftslagsstefnu Stjórnarráðsins þar sem stefnt er að því að allar ríkisstofnanir uppfylli öll fimm Grænu skrefin fyrir 1. júní 2021.

Fundurinn fer fram í gegnum forritið Teams. Ekki er nauðsynlegt að stofna aðgang til að komast inn á fundinn. Ekki þarf að hlaða niður forriti ef fylgst er með í gegnum vafra, en ef ætlunin er að fylgjast með fundinum í gegnum síma þarf að hlaða niður Teams smáforritinu. Ekki er mælt með að nota Safari vafrann en aðrir vafrar virka vel. Spurningar verður hægt að bera fram í gegnum spjallvirkni.

Hér er hlekkur á útsendingu fundarins.