Heilbrigðisstofnun Norðurlands lýkur sjö fyrstu skrefum fyrir jól

Starfsfólk Grænu skrefanna fær heldur betur að kynnast því vel hversu fjölbreytt starf fer fram í ríkisstofnunum og fyrirtækjum i meirihluta ríkiseigu, og hversu ólík þau eru þegar kemur að stærð, umfangi og fjölda starfsstöðva. Núna í desember stigu sjö stærstu starfsstöðvar Heilbrigðisstofnunar Norðurlands fyrsta skrefið, starfstöðvarnar á Akureyri (heilsugæslan og heimahjúkrun), Dalvík, Blönduósi, Húsavík, Sauðarkróki og í Fjallabyggð.

Um 600 starfsmenn starfa á þessum starfsstöðvum, og að auki er fjöldi vistmanna sem býr á þeim í dreifðari byggðunum, í lengri eða skemmri tíma. Það er í mörg horn að líta á stofnunum af þessari gerð og ánægjulegt að sjá hvað Heilbrigðisstofnun Norðurlands hefur komið inn í verkefnið af miklum krafti, þrátt fyrir þær áskoranir sem faraldurinn síðustu ár hefur haft í för með sér. Hver einasta aðgerð Grænu skrefanna sem stigin eru hefur jákvæð áhrif á starfsfólk og heimilisfólk, sem og umhverfið allt, og við hlökkum til að fylgjast með stofnuninni stíga næstu skref.

Til hamingju með fyrstu skrefin!