Grænir sveinar koma arkandi til byggða

Það eru ekki bara stofnanir í ríkisrekstri og fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins sem eru í óðaönn við að taka Græn skref. Jólasveinarnir hafa nefnilega tekið sig í gegn og arka núna grænum skrefum til bæja. Sem hluti af stefnumótunar og ímyndarvinnu jólasveinanna hafa þeir ákveðið að taka upp ný og grænni nöfn:   

  1. Hleðslustaur kemur fyrstur með rafmagnaða orku 
  2. Ruslaplokka er iðin við að plokka rusl um allar trissur 
  3. Nýtnir passar upp á að endurnota allar umbúðir, föt, mat og annað sem fellur til 
  4. Skammtamælir er mikill nákvæmnismaður sem passar að ekkert fari úr hófi 
  5. Sokkastoppa læðist í sokkaskúffur barnanna á nóttunni og skilur eftir bætta sokka að morgni 
  6. Skefill skefur ekki bara vandlega úr pottunum heldur öllum umbúðum sem hann kemst í tæri við 
  7. Hjólabuna þeysist um bæinn á tryllitækinu sínu 
  8. Leifasvelgur veit ekkert betra heldur en að komast í afganga 
  9. Restafrystir nýtir það sem er eftir þegar bróðir hans er orðinn saddur og hendir í frystinn 
  10. Gluggaþéttir er í óðaönn að þétta alla glugga og loka þeim sem hafa gleymst opnir 
  11. Dekkjaskelfir, óþekktaranginn sá, læðist um og skiptir út nagladekkjum fyrir heilsársdekk 
  12. Pokakrækir krækir sér í plastpoka og skiptir þeim út fyrir margnota poka 
  13. Flöskusníkir fer um allan bæ og sníkir flöskur sem hann gefur svo til styrktar góðra málefna 

En ekki nóg með að sveinarnir góðu hafi tekið ímynd sína í gegn, þá hafa þeir líka endurmetið það sem þeir eru að gefa í skóinn. Þeir reyna nú enn fremur en áður að styðja við góðar samverustundir og gefa gagnlegar gjafir. Þeir gefa gjarnan hluti sem hægt er að borða, bera á sig, upplifa eða gjafir sem þeir vita að vantar. Þeir gefa heldur minna en meira. Hér er dæmi um hluti sem leynast í pokanum hjá grænu sveinunum góðu: 

  1. Bíómiði 
  2. Umhverfisvottað freyðibað fyrir káta krakka 
  3. Klassíska mandarínan 
  4. Vettlingar keyptir í nytjamarkaði eða loppu 
  5. Ávaxtastangir 
  6. Margnota gríma 
  7. Kvikmyndaleiga á streymisveitu 
  8. Allt sem þarf til að gera heitt súkkulaði 
  9. Sundmiði 
  10. Hnetur og rúsínur 
  11. Eitthvað heimagert, eins og prjónaðar grifflur eða smákökur 
  12. Lífrænt og siðgæðismerkt súkkulaði 
  13. Gjöf í gegnum hjálparstarf, eins og að ættleiðing á dýri í útrýmingarhættu, handsápa fyrir þurfandi börn, eða hænur fyrir þurfandi fjölskyldur