Evrópsk samgönguvika 16. – 22. september

Evrópska samgönguvikan hefst á morgun 16. september og stendur yfir til 22. september. Markmið vikunnar er að hvetja fólk til umhugsunar um eigin ferðavenjur og virkja það til að nota almenningssamgöngur, hjóla eða ganga. 

Græn skref hvetja alla vinnustaði til þess að nýta samgönguvikuna til að vekja athygli á vistvænum samgöngum og jafnvel gera eitthvað skemmtilegt fyrir starfsfólk þessa viku. Það er ýmislegt hægt að gera til þess að lyfta vistvænum samgöngum upp, hér eru nokkur dæmi: 

  • Minna starfsfólk á að gera samgöngusamninga. 
  • Bjóða upp á morgunkaffi á bíllausa deginum fyrir þá sem ferðast með vistvænum hætti. 
  • Bjóða upp á hjólaviðgerðir fyrir starfsfólk. 
  • Skipuleggja happyhour fyrir starfsmenn í lok dags, enda mun enginn þurfa keyra heim. 
  • Skora á nágrannastofnun í samgöngukeppni. 
  • Halda útikaffi eða tónleika á bílastæðinu. 

Mikilvægt er að hafa í huga að vistvænar samgöngur eru ekki valmöguleiki fyrir alla en það nægir að fólk geri sitt besta miðað við þær aðstæður sem eru til staðar. Að fleiri nýti vistvænar samgöngur eru allra hagur. Allir njóta ágóðans af því að fækka bílum á götunni og draga á sama tíma úr mengun. 

Nánar má lesa um vikuna á facebook síðu samgönguviku og heimasíðu verkefnisins.