Málþing um umhverfisvænni mötuneyti – upptaka
Þann tíunda maí stóð teymi hringrásarhagkerfis Umhverfisstofnunar fyrir málþingi um umhverfisvænni mötuneytisrekstur. Tilefni málþingsins voru nýútgefnar leiðbeiningar okkar um umbúðanotkun og minni matarsóun í mötuneytum, þær má finna undir vinnugögn á heimasíðu Grænna skrefa. Við vekjum sérstaka athygli á veggspjaldi sem var hannað við sama tilefni þar sem nokkrar vel valdar aðgerðir eru dregnar fram. Veggspjaldið er tilvalið til útprentunar, mætti gjarnan hanga inni í eldhúsum eða kaffistofum starfsfólks mötuneyta og hefur verið þýtt á bæði ensku og pólsku. Við hvetjum alla þátttakendur Grænna skrefa til að kynna sér leiðbeiningarnar, prenta þær út ef við á og benda viðeigandi þjónustuaðilum á þær.
Stór hluti Grænna skrefa er að draga úr umhverfisáhrifum matarneyslu á vinnustað, horft er til umbúðanotkunar, fjölnota borðbúnaðar, kolefnisspors matvæla sem valin eru og matarsóunar – svo eitthvað sé nefnt. Okkar ágætu frummælendur snertu á þessu,og mörgu öðru í erindum sínum, sem við vonum að gagnist við vinnuna við Grænu skrefin.
Vegna tæknilegra örðugleika lokaðist fundurinn áður en seinasta erindið fór af stað og langflestir áhorfendur misstu af því, en erindið var þó tekið upp og myndböndunum skeytt saman. Hér er því hægt að sjá dagskrána í heild sinni. Við þökkum frummælendum málþingsins kærlega fyrir, og áhorfendum fyrir sýndan áhuga.
Erindin í tímaröð:
00:00-09:53: Kynning á nýjum leiðbeiningum Umhverfisstofnunar. Kristín Helga Schiöth og Ásdís Nína Magnúsdóttir, sérfræðingar við Umhverfisstofnun.
09:34-23:53: Heilsusamlegt mataræði hagstætt umhverfinu. Anna Sigríður Ólafsdóttir, doktor í næringarfræði og prófessor við Menntavísindasvið HÍ.
23:54-35:18: Áherslur Matvælaráðuneytisins og stefnumótun um matvælaframleiðslu Íslands. Sigurður Eyþórsson, sérfræðingur við Matvælaráðuneytið.
35:19-47:00: Svansvottuð mötuneyti – Reynslusaga. Ríkharður Gústavsson, deildarstjóri og yfirmatreiðslumaður Íslandsbanka og Ásgeir Ólafsson, sérfræðingur rekstrarþjónustu Íslandsbanka.
47:01-58:56:00 – Umhverfisvænt mötuneyti – Upplifun neytenda. Kolbrún Ýrr Bjarnadóttir, íslenskukennari og meðlimur í Umhverfisnefnd Menntaskólans á Akureyri.
56:01-1:03:00 – Spurningar og umræður.