Græn skref – lifandi verkefni

Stöðugt fleiri ríkisaðilar ljúka nú við fimmta og síðasta Græna skrefið og er oft spurt; hvað svo?

Það er eðlilegt að sú spurning vakni, enda eru umhverfismál eilífðarverkefni sem ekki er hægt að ljúka fyrir fullt og allt, heldur þarf stöðugt að vinna að því að gera betur og vera vakandi. Það eru nokkur veigamikil atriði sem tryggja að Grænu skrefin séu lifandi verkefni og hér koma dæmi um þau:

  • Ferlar eru innleiddir í fimmta skrefinu sem tryggja að umhverfisstarf sé innleitt í alla starfsemi ríkisaðilans og að það liggi fyrir hver bera ábyrgð á hverju verkefni. 
  • Allir ríkisaðilar skila Grænu bókhaldi til Umhverfisstofnunar árlega og hafa þannig yfirsýn yfir framgang umhverfisstarfsins. 
  • Aðgerðir á gátlistum Grænna skrefa eru uppfærðar reglulega, með hækkandi kröfum og meiri þekkingu.
  • Endurúttekt á Grænu skrefunum fer fram á tveggja ára fresti eftir að fimmta skrefi er náð og þá skulu þátttakendur fylgja uppfærðum gátlistum.

 

 

Það er alltaf gott að hafa góðar fyrirmyndir og óhætt er að benda á Menntaskólann á Tröllaskaga þegar kemur að því að viðhalda metnaðarfullu umhverfisstarfi eftir að fimmta skrefinu var náð, en skólinn var ein af fyrstu stofnunum til að fara í gegnum Grænu skrefin. Starfsmaður Grænna skrefa leit við á Vorsýningu skólans á dögunum, þar sem nemendur sýndu afrakstur annarinnar í listsköpun. Athygli vakti að einungis lítill hluti verkanna prýddi veggi skólans, en stærsti hluti sýningarinnar fór fram rafrænt, en langstærsti hluti nemendanna er einmitt í fjarnámi. Tengiliður við Grænu skrefin, Unnur Hafstað, greindi frá því að upphaflega hefðu nemendur sent verk sín til skólans þar sem þau voru hengd upp, en síðan send til baka. Til þess að spara kolefnisspor af þessum sendingum er nú meiri áhersla lögð á rafræna sýningu og útkoman er stórgóð, hana má sjá hér.

Það má einnig benda á að Grænu skrefin útiloka ekki annarskonar umhverfisstarf eða verkefni og það er alltaf gaman að sjá metnað sem nær út fyrir Grænu skrefin. Grænfáninn er dæmi um slíkt verkefni, en Menntaskólinn á Tröllaskaga hlaut Grænfána númer tvö á dögunum. Á heimasíðu skólans segir að undanfarin ár hafi áherslan í skólanum verið á neyslu og úrgang, og hafa þau málefni verið samþætt hinum ýmsu námsgreinum. Þetta er því annað fyrirtaks dæmi um hvernig hægt er að samtvinna umhverfisstarf öllu öðru starfi sem á sér stað í stofnuninni.