HVE fyrsta heilbrigðisstofnunin komin með Græn skref

Heilbrigðisstofnun Vesturlands; starfsstöðvar í Borgarnesi, Grundarfirði, Ólafsvík og Stykkishólmi fengu á dögunum allar viðurkenningu fyrir fyrstu tvö Grænu skrefin. Þau eru öll vel að þessari viðurkenningu komin enda á umhverfisvænn hugsanaháttur sér langa sögu á Snæfellsnesi og Vesturlandi. Töluvert er síðan stofnanirnar fóru að vinna að umhverfisvænni starfsháttum og er gengið oft langt í hvers kyns nýtni. Dæmi eru um fleiri lítra sparnað í ræstingaefnum eftir að skammtastærðir voru betur aðgættar, matarolía úr eldhúsi HVE á Stykkishólmi er hreinsuð og notuð á bíla, starfsmenn nýta ferðir milli starfsstöðva í vöruflutninga og ýmislegt annað. Við óskum þeim innilega til hamingju með frábæra vinnu 🙂 (Á mynd: Hafdís Bjarnadóttir tók á móti viðurkenningunni fyrir HVE Stykkishólmi).

Ásgeir Sæmundsson tók á móti viðurkenningunni fyrir HVE Borgarnesi.

Áshildur Erlingsdóttir tók á móti viðurkenningu fyrir HVE Grundarfirði.

Þórarinn Steingrímsson tók á móti viðurkenningu fyrir HVE Ólafsvík.