Fjársýslan tekur við 3. skrefinu

Frá vinstri: Linda Einarsdóttir, Sunna Þórsdóttir, Hrannar Bogi Jónsson, Vilborg Hólmjárn, Stefanía Ragnarsdóttir, Hildur Harðardóttir hjá Umhverfisstofnun, Jóhann Halldórsson og Ragnheiður K. Gunnarsdóttir.

Í dag tók græna teymi Fjársýslunnar við þriðja Græna skrefinu. Innleiðingin hefur gengið mjög vel fyrir sig en þau tóku á móti fyrsta skrefinu í september 2019 og stefna á að ljúka því fjórða fyrir áramót og fimmta á vordögum 2021. Græna teymið er mjög bjartsýnt á að ná settum markmiðum enda góður andi á vinnustaðnum og allir samtaka í því að leggja sitt lóð á vogarskálarnar í umhverfismálum.

Við starfsmenn Grænna skrefa stóðumst ekki mátið að fá að sýna þeirra frábæra árangur sem sjá má hér að neðan en þau hafa skilað Grænu bókhaldi til Umhverfisstofnunar samfleytt frá 2016 og greinilegt að aðgerðir eru að skila sér.  Til hamingju með 3. skrefið allir hjá Fjársýslu ríkisins!

Pappír

Árið 2018 voru notuð 3 bretti af pappír eða 22,5 kg. pr. mann en árið 2019 aðeins 1 bretti eða 7 kg. pr. mann. Geri aðrir betur!

Á einu bretti eru 600 kg. af pappír eða 48 kassar.

Prenthylki

Innkaup á prenthylkjum fór úr 77 stk. niður í 34 stk. á milli ára.

Rafmagn

Frá árinu 2016 hafa þau minnkað rafmagnsnotkun jafnt og þétt eða úr 135.488 kWst niður í 103.879  kWst fyrir allt húsið. Mesta lækkunin var á milli áranna 2018 og 2019 eða úr 128.150 niður í 103.879 kWst. Taflan sýnir rafmagn kWst á stöðugildi.

Einnota mál og pappadiskar

Árið 2018 voru keypt 9.100 einnota mál og 6.400 einnota diska!

Árið 2019 kláruðust birgðarnar og þurfti eingöngu að kaupa 1.000 pappamál fyrir sérstök tilefni. Bravó!

Úrgangur

Óflokkaður úrgangur dróst saman um tæp 1.000 kg. eða úr 3.816 kg. árið 2018 niður í 2.970 kg. í fyrra.

Hlutfall úrgangs til endurvinnslu jókst um 9% á milli ára eða úr 53% í 62% 2019 og í dag er endurvinnsluhlutfallið komið í 73%! Bravissimo!

Lífrænn úrgangur var 930 kg. 2019 en enginn árið áður.

Ræstingar

Fjársýslan hefur eingöngu keypt umhverfisvæna ræstiþjónustu og ræstiefni síðan 2011. Að auki byrjuðu þau að kaupa plastpoka úr endurunnu plasti og maíspoka 2019 og stefna að því að minnka plastpokanotkun allverulega.