Skógræktin stígur skref númer tvö

Allar starfsstöðvar Skógræktarinnar hafa nú fengið viðurkenningu fyrir að stíga annað Græna skrefið. Starfsfólki Skógræktarinnar er mjög umhugað um umhverfið og höfum við í Grænu skrefunum ekki síður lært af þeim en þau af okkur þegar kemur að umhverfismálunum. Öflug fjarfundarmenning er til staðar hjá stofnuninni sem er dreifð um allt land og fara t.a.m ýmis námskeið og fyrirlestrar fram á Teams. Með því sparast bæði tími, fjármunir og losun. Tjaldsvæði Skógræktarinnar á Vöglum og Hallormsstað bjóða gestum upp á flokkun úrgangs sem er frábært framtak sem fleiri tjaldsvæði um land allt mættu taka til fyrirmyndar. Nýtni og skapandi hugsun eru áberandi hjá Skógræktinni eins og sjá má á meðfylgjandi myndum þar sem nafnspjöld og aðrir munir eru búnir til úr afurðum skóganna. Á Mógilsá er lífrænn úrgangur jarðgerður á staðnum eins og á fleiri starfsstöðvum og kaffikorgurinn fær að fara beinustu leið út í skóg þar sem næringarefnin nýtast svo sannarlega.