Íslenskir losunarstuðlar aðgengilegir í fyrsta sinn


Í Grænu bókhaldi eru innbyggðir svokallaðir losunarstuðlar sem gera það að verkum að losun frá helstu uppsprettum gróðurhúsalofttegunda (GHL) í starfseminni reiknast sjálfkrafa.

Umhverfisstofnun hefur nú birt upplýsingar um losunarstuðlana á heimasíðu sinni og eru þeir því aðgengilegir fyrirtækjum, sveitafélögum, stofnunum og öllum þeim sem vilja reikna út losun frá sinni starfsemi.

Stuðlunum fylgja skýrar leiðbeiningar um hvaða stuðlar henti best til að reikna út losun frá helstu uppsprettum GHL í rekstri fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga á Íslandi.  Markmiðið er að aðstoða sem flesta við að fá haldbæra mynd af losun síns reksturs eða annara athafna.  Auk þess gefa stuðlarnir rekstraðilum tækifæri til að tryggja að upplýsingar um þeirra losun sé í samræmi við þær reiknireglur sem gilda í Landsskýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda, sem íslensk stjórnvöld taka saman og skila til Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC).

Til að glöggva sig á því hvernig nota skal losunarstuðla má segja að þeir séu tölur sem nota má til að  reikna út losun GHL með því að margfalda þá við viðeigandi grunngögn. T.a.m. er unnt að reikna út magn GHL sem losna við bruna eldsneytis með því að margfalda losunarstuðul fyrir brennt eldsneyti við magn þess eldsneytis sem notað var.

Losunarstuðlana og helstu upplýsingar um þá má finna hér.