Minni orkunotkun og aukið öryggi með vistakstri

Í skrefi tvö í Grænu skrefunum snýr ein aðgerð að vistakstri en hún hljóðar svona: „Starfsfólk okkar sem notar bíl mikið vegna vinnu sinnar hefur farið á vistakstursnámskeið“. Hér höfum við einnig hvatt stofnanir til að fá fyrirlestur um vistakstur fyrir allt starfsfólk enda fræðsla sem á sannarlega erindi við alla sem nota bíl, hvort sem það er í leik eða starfi. Með því að breyta ökuhegðun okkar og temja okkur vistakstur stuðlum við að minni útblæstri og mengun, minnkum slit á dekkjum og vegum og drögum þannig úr magni svifryks í umhverfinu og spörum auk þess pening. Starfsfólk Þjóðskrár Íslands fékk fyrirlestur um vistakstur á dögunum og starfsfólk Vatnajökulsþjóðgarðs skellti sér á vistakstursnámskeið í Ökuskólanum í Mjódd. „Þjóðgarðurinn okkar er stór og dreifður og þurfa starfsmenn stundum að aka langar leiðir til að sinna verkefnum og því er mikilvægt að temja sér vistakstur. Með slíku ökulagi er hægt að minnka orkunotkun bifreiða um 10-15% auk þess sem vistakstur getur stuðlað að meira akstursöryggi. Starfsfólk þjóðgarðsins lærði margt nýtt á vistakstursnámskeiðinu og hlökkum við til að sjá árangurinn í grænu bókhaldi þjóðagarðsins“, segir í frétt á vef Vatnajökulsþjóðgarðs.

1573728550 vistakstur

Starfsfólk Vatnajökulsþjóðgarðs og Sigurður E. Steinsson frá Ökuskólanum í Mjódd.