Þorsteinn Magnússon varaskrifstofustjóri, Heiðrún Pálsdóttir, formaður umhverfisnefndar, Auður Elva Jónsdóttir fjármála- og rekstrarstjóri, Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, og Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri tóku á móti viðurkenningunni fyrir hönd Alþingis. Á myndinni eru einnig Ásdís Nína Magnúsdóttir og Birgitta Steingrímsdóttir frá Umhverfisstofnun

3. og 4. Græna skrefið í höfn hjá Alþingi

Tæpu ári eftir að hafa tekið við viðurkenningu fyrir 2. Græna skrefið tóku Forseti Alþingis, yfirstjórn skrifstofu og fulltrúi umhverfisnefndar á móti viðurkenningu fyrir að hafa lokið innleiðingu á 3. og 4. skrefinu. Það fer ekki á milli mála að á Alþingi er unnið afar öflugt umhverfisstarf og mikill hugur í starfsfólki að gera sitt besta þegar kemur að umhverfismálunum.

Markvisst hefur verið unnið að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og mengun vegna samgangna. Tveir af þremur bílum Alþingis eru tengiltvinnbílar og búið er að koma fyrir 16 hleðslustöðvum á bílastæðum Alþingis. Þingverðir fara í styttri ferðir á rafhlaupahjóli. Fyrr á árinu fékk Alþingi platínum-vottun Hjólafærni, en slík vottun er veitt þeim vinnustöðum sem veita besta aðgengi fyrir hjólandi og gangandi starfsmenn og gesti. Rúmlega 60% starfsmanna eru með samgöngusamning og koma til vinnu með strætisvagni, hjólandi eða gangandi.

Á tímum Covid-19 hefur verið tekið heljarstökk í notkun fjarfundabúnaðar á fundum sem þingmenn og starfsmenn taka þátt í, ekki síst nefndafundum auk funda innanlands og í alþjóðastarfi. Það er nokkuð öruggt að notkun fjarfundabúnaðar mun í framtíðinni koma að einhverju leyti í stað hefðbundinna funda bæði innanlands og utan og draga þannig úr umhverfisáhrifum, eins og segir í frétt Alþingis um málið.

Flokkunaraðstaða er til fyrirmyndar og er endurvinnsluhlutfall Alþingis það sem af er ári tæp 70%. Stefnan er sett á 80% árið 2020.

Undanfarin ár hefur verið dregið úr pappírsnotkun með rafrænni útgáfu þingskjala, fækkun prentara o.fl. Til að minnka enn frekar magn sorps var ákveðið að fækka prentuðum eintökum af dagblöðum, tímaritum og skýrslum sem þingið fær.

Mötuneytið hefur gripið til ýmissa aðgerða til að minnka matarsóun og er hún nú mjög lítil. Afgangar eru frystir og notaðir síðar og boðið er upp á úrval vikunnar á föstudögum. Til að draga úr sóun á kaffi hefur verið hætt að fara með kaffikönnur inn á fundi og stendur fundargestum til boða að sækja sér staka bolla í kaffivél.

Við óskum Alþingi innilega til hamingju með áfangann!

Sjá frétt á vef Alþingis.

 

Sérsmíðaðar flokkunartunnur sem passa vel á sinn stað og eru auk þess á hjólum

 

Fínasta aðstaða fyrir gesti til að læsta hjólum sínum

 

Starfsfólk hefur aðgang að þurrskáp og hjólaviðgerðarbúnaði auk þess sem hægt er að geyma hjólin í læstu rými

 

Hér má sjá Ásdísi Nínu Magnúsdóttur og Birgittu Steingrímsdóttur frá Umhverfisstofnun veita fulltrúum Alþingis viðurkenninguna; þeim Þorsteini Magnússyni varaskrifstofustjóra, Heiðrúnu Pálsdóttur, formanni umhverfisnefndar, Auði Elvu Jónsdóttur fjármála- og rekstrarstjóra, Steingrími J. Sigfússyni, forseta Alþingis og Rögnu Árnadóttur skrifstofustjóra.

4 Græn skref í höfn