Samgöngusamningar skipta máli

Í baráttunni við loftslagsbreytingar þurfum við Íslendingar að draga úr losun um 40% og þar vega mest vegasamgöngur. Því skiptir mestu máli að við reynum að draga úr losun eins og hægt er þegar kemur að samgöngum. Samgöngusamningar virka sem hvatning til starfsmanna um að koma með umhverfisvænni hætti til og frá vinnu og geta þar af leiðandi dregið úr losun en svo eru aðrir þættir sem við þurfum að horfa til eins og fjárfesting í vegasamgöngum og samgönguflæði. Því fleiri sem ganga, hjóla og nota strætó, því betra fyrir umhverfið og samgöngukerfið okkar. 

En hvernig fer þetta fram? Jú stofnanir/fyrirtæki bjóða starfsmönnum að gera gagnkvæman samning þar sem fyrirtækið/stofnunin skuldbindur sig til að greiða ákveðna upphæð til starfsmannsins noti hann umhverfisvænni samgöngur. Að sama skapi samþykkir starfsmaðurinn að ferðast til og frá vinnu að minnsta kosti þrjá daga í vinnu með umhverfisvænni hætti. 

Í meðfylgjandi skjali má sjá útgáfu af samgöngusamningi. Hvernig þeir eru útfærðir fer að sjálfsögðu allt eftir hverri stofnun eða fyrirtæki fyrir sig og hvað hentar í hverju tilfelli. Verið óhrædd við að prufa mismunandi leiðir en það getur vel verið að ein leið henti ekki öllum jafnvel.
Samgöngusamningar hafa þegar sannað gildi sitt en þar sem þeir eru í boði er starfsfólk tilbúnara til að nýta sér vistvænni samgöngur. Hjá Umhverfisstofnun voru 44% starfsmanna með heilsárssamgöngusamning, 10% starfsmanna var með sumarsamning og 4% með samninga um að hjóla á fundi. Samanlagt voru því 58% starfsmanna með einhvers konar samgöngusamning á árinu 2017.