Hjálpumst að við hreinsanir
Samkvæmt tölum frá Sameinuðu þjóðunum þá fara um 8 milljón tonn af plasti út í höfin á hverju ári. Það er eins og 8 milljón smábílum sé ýtt út í sjó á hverju ári. Það er því gríðarlega mikilvægt að við á Íslandi séum meðvituð um að tína upp það rusl sem við sjáum á víðavangi og taka þátt í hreinsunum sem þessum. Þó að við sjálf höfum kannski ekki hent neinu rusli á götuna, þá erum við sem samfélag ábyrg fyrir því með eigin neyslu. Hóum saman samstarfsfólkinu og tínum saman rusl t.d. í nálægð vinnustaðarins. Þetta þarf ekki að vera flókið, tökum þátt, ef ekki í þessari viku þá með einhverjum öðrum hætti.