Góðar fréttir úr Grænu bókhaldi!

Skil á Grænu bókhaldi ríkisstofnana fyrir árið 2022 voru í vor. Niðurstöður bókhaldsins eru um margt ánægjulegar enda gífurlega gott umhverfisstarf sem hefur átt sér stað, meðal annars í tengslum við Græn skref.

Losun gróðurhúsalofttegunda á hvert stöðugildi árið 2022 var örlítið hærri en árið 2021, en lægri en árin þar á undan, þ. á m. árið 2020. Ef tekið er tillit til breyttrar starfsemi vegna heimsfaraldurs árin 2020 og 2021, má með sanni segja að mikill árangur hafi náðst. Um 25% samdráttur var í losun gróðurhúsalofttegunda á hvert stöðugildi á milli áranna 2019 og 2022, en samkomu- og ferðatakmarkanir lituðu starf stofnana hvorugt þeirra ára.

Þegar losun frá ólíkum uppsprettum er skoðuð má sjá að raforkunotkun jókst töluvert mikið á milli ára, sem og flug. Hins vegar var losun vegna flugs 30% minni á stöðugildi árið 2022 en 2019, sem við fögnum þar sem þá giltu engar ferðatakmarkanir sem settu strik í ferðalög.

Losun vegna aksturs dróst örlítið saman miðað við fyrri ár, sem verður að teljast góður árangur af sömu ástæðum.

Losun vegna óflokkaðs úrgangs hefur jafnframt dregist stöðugt saman, á meðan hlutfall flokkaðs úrgangs er á stöðugri uppleið. Að auki hefur hlutdeild umhverfisvottaðrar ræstivöru aukist sem og hlutfall umhverfisvottaðs pappírs.

Þessar niðurstöður eru sannarlega fagnaðarefni og við viljum hrósa öllum sem lögðu hönd á plóg! Við stefnum að sjálfsögðu enn hærra (eða lægra 😉) og höldum áfram að setja umhverfismálin í forgang!