Vegagerðin í Borgartúni klárar 3. skrefið!
Það er viðeigandi að Vegagerðin í Borgartúni fagni nýju ári með því að halda upp á að þeir kláruðu þriðja græna skrefið sitt rétt fyrir jól. Áramótin gefa okkur nefnilega tækifæri til að horfa bæði tilbaka og fram á veginn. Vegagerðin getur því bæði horft stolt um öxl og haldið ótrauð áfram. Til að fagna þessum áfanga hittumst við á fjarfundi.
Til að taka þriðja skrefið hefur Vegagerðin í Borgartúni meðal annars farið sparlega með rafmagn og hita, flokkað 77% af úrgangi sínum í sjö úrgangsflokka, boðið starfsfólki upp á rafmagnshjól fyrir styttri vinnuferðir, eru með silvurvottun fyrir hjólaaðstöðu sína, notað vistvænar hreinsivörur, og skilað grænu bókhaldi.
Hugmyndaauðgi í umhverfismálum
Okkur hjá Grænu skrefunum langar líka til þess að hrósa Vegagerðinni sérstaklega fyrir hugmyndaauðgi í umhverfismálum. Vegagerðin hefur ekki bara fylgt eftir gátlista Grænu skrefanna, heldur komið með eigin nýskapandi og nýtnar lausnir. Sem dæmi má nefna samstarfið við Arkitýpu um að búa til hjólaskýli úr gömlum plaststikum. Þetta átti að frumsýna í mars 2020, en var frestað vegna farsóttarinnar, en vonandi eru ljósari tímar framundan og við getum fengið að sjá afreksturinn á hönnunarmars ársins. Vegagerðin er líka að vinna í því að auka endurnýtingu á malbiki, sem er mjög mikilvægt umhverfisverkefni. Það eru líka dæmi um að Vegagerðin noti salt frá fiskvinnslum til að dreifa á vegina á veturna. Þetta sýnir okkur að umhverfismál eru ekki bara einhver leiðinleg boð og bönn, heldur tækifæri til að nýta hugvit stofnanna og gefa fólki útrás fyrir sköpunargleðina.
Áskoranir Vegagerðarinnar
En það fylgja því vissulega áskoranir að vera umhverfisvænn á sama tíma og maður þjónustar vega útum allt land. Vegagerðin verður að halda uppi þjónustustigi og getur því ekki dregið úr keyrðum kílómetrum. Starfsmenn vegagerðarinnar keyra oft mjög langar vegalengdir, og í þeim tilvikum getur hentað illa að bíða eftir hleðslu á rafbíl. Starfsmenn keyra líka oft á tíðum í erfiðum aðstæðum, þar sem engir vistvænir bílar duga til. Það sem vegagerðin getur þó gert er að draga úr losun per keyrðan kílómetra og hefur sett sér markmið um það. Við hlökkum til að fylgjast með hvernig það gengur, því notkun Vegagerðarinnar á jarðefnaeldsneyti er án efa einn af stærstu umhverfisáhrifum starfseminnar.
Græn skref höfð að leiðarljósi við flutninga
En það er líka fleira mikilvægt í pípunum. Stefnt er að því að Vegagerðin á höfuðborgarsvæðinu flytji í nýtt húsnæði við Suðurhraun í Garðabæ. Með nýju höfuðstöðvunum verður starfsemi Borgartúns, Vesturvarar og Hringhellu sameinaðar. Það er mjög jákvætt að Vegagerðin sé þegar á góðri leið með Grænu skrefin þegar flutt er í nýtt húsnæði, því að það er oft auðveldara að ná árangri í umhverfismálum ef hugað er að þeim strax frá byrjun. Ég geri ráð fyrir því að flokkunaraðstaða verði strax frá upphafi til fyrirmyndar, að þið gerið kröfur á nýja mötuneytið ykkar að draga úr matarsóun og bjóði upp á umhverfisvænan mat, og að strax frá upphafi sé gert ráð fyrir góðri hjólaaðstöðu.
Við óskum Vegagerðinni innilega til hamingju!