Plastlaus september handan við hornið

Árverkniátakið Plastlaus september hefur fest sig rækilega í sessi hér á landi frá því það var sett á laggirnar árið 2017. Tilgangur verkefnisins er að vekja fólk til umhugsunar um plastnotkun og þann plastúrgang sem fellur til dagsdaglega og leita leiða til að minnka notkunina.

 

 

Átakið snýst ekki um að vera fullkomlega plastlaus í september heldur að finna sér markmið í mánuðinum til að minnka neyslu á einnota plastumbúðum. Við í Grænu skrefunum hvetjum okkar þátttakendur til að setja sér markmið í mánuðinum og nota til þess eftirfarandi veggspjald. Veggspjaldið er svo hægt að birta á heimasíðu stofnunarinnar og innri vef, senda út til starfsmanna og/eða hengja upp þar sem allir sjá.

Hér að neðan eru nokkur dæmi um markmið sem fyrirtæki og stofnanir geta sett sér í Plastlausum september.

Við tökum þátt í Plastlausum september með því að:

  • Fræða starfsfólk okkar um plast og afleiðingar ofnotkunar þess
  • Setja upp verklagsreglur fyrir innkaup til að lágmarka einnota plastumbúðir sem til okkar berast
  • Losa okkur við einnota borðbúnað úr plasti
  • Hvetja starfsfólk okkar til að minnka plastnotkun í mánuðinum
  • Minnka magn plastumbúða sem til fellur hjá okkur (hægt að fá tölur frá sorphirðu um magn fyrri mánaða og setja sér markmið um samdrátt)
  • Fara í flokkunarátak svo allt umbúðaplast komist í réttan farveg
  • Fara út að plokka rusl í hádeginu 1x í viku allan mánuðinn

Við hlökkum til að sjá ykkur útfærslur á plastlausum markmiðum!