Nýtnin í fyrirrúmi hjá Úrvinnslusjóði
Úrvinnslusjóður lauk á dögunum fyrstu þremur skrefunum á einu bretti, við óskum stofnuninni til hamingju með það. Úrgangur eru ær og kýr Úrvinnslusjóðs og starfsfólk leggur mikið kapp á að minnka úrgang og nýta allt sem best. Eldhússtólarnir í kaffistofu Úrvinnslusjóðs fengu yfirhalningu á þessu ári, og voru yfirdekktir í stað þess að skipta þeim út. Þá gerð má sjá til hægri á myndinni, en tau-ákvlæði var skipt út fyrir leðurlíki sem auðvelt er í þrifum. Áætlað er að yfirdekkja 7 aðra stóla á næsta ári, þá sem eru til vinstri á myndinni.
Það er vel við hæfi að skrifa um þetta á síðasta virka degi Evrópsku nýtnivikunnar. Það felur í sér mun lægra kolefnisspor að lagfæra það sem til er en að farga hinu gamla og kaupa nýtt í staðinn. Það er orðið auðvelt að eignast ódýra, fjöldaframleidda hluti. Aukið aðgengi og lækkað verð húsgagna gæti verið letjandi þegar kemur að því að gera við hið gamla. Fólki finnst e.t.v. ekki taka því að senda hluti í viðgerð, eða yfirhalningu þar sem verðmunurinn á viðgerðinni og nýjum hlut er stundum lítill. Það er gott að hafa í huga að umhverfiskostnaður er ekki reiknaður inn í framleiðslu hluta, en við greiðum þann kostnað á annan hátt. Það er um að gera að vanda valið þegar keypt er, ef húsgögn eru af góðum gæðum í upphafi er auðvelt að flikka upp á og gera við þegar þau eru farin að láta á sjá.