Nýtnivikan og uppfært vinnugagn

Evrópska Nýtnivikan hófst þann 20. nóvember og stendur yfir til 28. nóvember. Af því tilefni höfum við í Grænu skrefunum uppfært vinnugagn um hvað stofnanir geta gert í tilefni hennar, en það skjal má nálgast hér. Dagskrá Nýtnivikunnar má finna hér, en þema vikunnar í ár eru hringrásarsamfélög.

Á starfsstöð Umhverfisstofnunar í Reykjavík höfum við sett upp jólaskiptimarkað sem mun vera uppi yfir vikuna. Einungis ein regla er fyrir markaðinn, en það er að það sem þú kemur með geti veitt einhverjum öðrum meiri gleði. Engin takmörk eru á því hvað má koma með á skiptimarkaðinn, en við höfum nefnt sem dæmi að hægt sé að koma með bækur, fatnað og skó, jólagjafir, jólaskraut, dót og svo geta umhverfismeðvitaðir jólasveinar fundið þar skógjafir sem leita að nýju heimili. Við gerum ekki kröfu um að fólk komi með neitt á markaðinn til að það geti tekið, enda er markmiðið að finna sem flestum hlutunum nýtt heimili.