Jólagjafir til starfsfólks

Nú er tæpur mánuður til jóla og stjórnendur stofnana og fyrirtækja sennilega farnir að huga að jólagjöfum til starfsfólks. Græn skref hafa tekið saman nokkrar hugmyndir um umhverfisvænni gjafir til starfsfólks. Þessar hugmyndir uppfylla jafnframt aðgerð um um gjafir til stafsfólks í skrefi fjögur í gátlistanum.

  • Upplifanir. Margir vinnustaðir gefa upplifanir í jólagjöf. Þá getur gjafabréf í leikhús, dekur eða gistingu verið dæmi að upplifunum sem gaman er að gefa og þiggja.
  • Áskrift eða árskort einhversstaðar. Áskrift af hljóðbókarveitu, sundkort eða bíókort eru skemmtilegar gjafir.
  • Styrkur til hjálparstarfs í nafni viðkomandi. Mörg hjálparsamtök bjóða upp á einskonar gjafakort til að gefa.
  • Stuðningur við umhverfisvæn verkefni. Til dæmis rótarskot Björgunarsveitanna.
  • Lífræn eða umhverfisvottuð gjöf. Athugið að það getur verið erfitt að finna eitthvað sem alla vantar. Þá getur verið gott að gefa gjafabréf í verslanir sem selja umhverfisvottaðar gjafir og þar með auka líkurnar á að hitta í mark.
  • Umhverfisvænn og góður matur. Sé ætlunin að gefa eitthvað matarkyns eru ýmsir hlutir sem er gott að huga að til að gera gjöfina umhverfisvænni. Þá eru lífrænar og/eða siðgæðisvottaðar vörur oft góður kostur. Sleppum að gefa rautt kjöt til að spara kolefnisfótsporið, en hér má sjá upplýsingar um umhverfisvænni matvæli. Þá getur líka verið sniðugt að gefa gjafabréf út að borða í staðinn.
  • Frídagar. Það eru engar gjafir betri en gjöf sem gefur tíma með þeim sem starfsfólkinu þykir vænt um. Frídagar eru tilvalin gjöf. Yfirmaður á einni stofnun nefndi sérstaklega að þetta væri gjöf sem kostaði lítið vinnutap, því ef fólk þarf að vinna mikið milli jól og nýárs er hugurinn oft heima og þá er betra að starfsfólkið fái að koma úthvílt til baka til vinnu eftir jólin.

Gleðileg jól!