Ný orkumerki Evrópusambandsins og uppfærður gátlisti

Orkumerki Evrópusambandsins hafa tekið breytingum og eru nú á kvarðanum A-G á meðan orkunýtniflokkarnir A+, A++ og A+++ víkja. Nýi kvarðinn er strangari og er hannaður á þann veg að mjög fáar vörur í dag eru í flokki A, en það gefur rými fyrir betri orkunýtingu í framtíðinni. Orkunýtnustu raftæki dagsins í dag eru oftast á skalanum B-D samkvæmt nýju merkjunum.

Ástæðan fyrir breytingunum er að gera merkin skýrari, en yfir 90% af rafvörum voru áður í flokki A+, A++ eða A+++. Nýju merkin tryggja það einnig að fyrirtæki haldi áfram að þróa orkunýtnari tæki.

Útlit merkimiðanna hefur breyst lítillega og er orðið einfaldara og nútímalegra. Myndtákn sem skýra tiltekna eiginleika vörunnar hafa verið uppfærð, nokkur eru eins og á gamla miðanum, sum hafa verið endurgerð og sum eru ný.

Þann 1. mars tóku nýju orkumerkin gildi fyrir ísskápa, frysta, uppþvottavélar, þvottavélar, þvottavélar með þurrkurum, sjónvörp og rafeindaskjáir og 1. september bættust ljósgjafar við. Aðrar vörur munu taka upp nýju orkumerkin á næstu árum.

Aðgerð í gátlista Grænu skrefanna sem snýr að kaupum á raftækjum hefur verið uppfærð með tilliti til nýju merkjanna. Aðgerðin var númer fjögur í skrefi eitt, undir innkaupum, en er nú númer fimm. Ein aðgerð hefur bæst við í skrefi eitt, undir innkaupum, þar sem innkaupafólk er beðið um að nota ákvörðunartré fyrir innkaup áður en innkaup fara fram. Þið getið sótt uppfærðan gátlista hér eða undir Vinnugögn hér á síðunni.

Gangi ykkur vel!