Norrænar næringarráðleggingar í takt við Græn skref

Í vikunni hélt Norræna ráðherranefndin kynningu um nýjar norrænar næringarráðleggingar. Fram kom á kynningarfundi að ráðleggingarnar byggja á bestu vísindalegu upplýsingum sem völ er á um matvælaneyslu, heilsu og umhverfismál.

„Með skýrslunni fáum við vísindalegan grunn sem sýnir að hollt mataræði er oftast líka sjálfbært. Það eru mikil samlegðaráhrif á milli heilsufars og umhverfismála fólgin í þeirri breytingu sem nauðsynleg er á matarvenjum okkar,“ sagði Rune Blomhoff, verkefnisstjóri Norrænna næringarráðlegginga 2023 og prófessor við háskólann í Ósló.

Í fyrsta sinn taka ráðleggingarnar bæði til heilsufarslegra og umhverfislegra þátta, en þær mæla með jurtaríkara mataræði, aukinni fiskneyslu og að dregið verði úr kjötneyslu. Þessi áhersla er í takt við aðgerðir Grænna skrefa sem miða að því að draga úr umhverfisáhrifum af matvælum meðal annars með því að auka hlut grænmetis og plöntupróteina ásamt því að draga úr neyslu rauðs kjöts.

Lesa má nánar um ráðleggingarnar á vef Norrænu ráðherranefndarinnar.