Leiðbeiningar um ábyrga kolefnisjöfnun
Hluti af gerð loftslagsstefnu er að stofnanir setji sér skilgreind markmið um kolefnisjöfnun starfseminnar. Mikilvægt er að kolefnisjafna reksturinn með trúverðugum og ábyrgum hætti og velja verkefni sem hafa raunverulegan loftslagsávinning í för með sér. Við höfum tekið saman leiðbeiningar um viðmið, vottanir og seljendur kolefniseininga sem standast alþjóðlegar gæðakröfur. Leiðbeiningarnar finnið þið undir Vinnugögnum – hér.
En hvað er kolefnisjöfnun?
Með nokkurri einföldun má segja að kolefnisjöfnun felist í því að einstaklingar eða lögaðilar bæti fyrir eigin losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) með því að fjármagna verkefni sem a) koma í veg fyrir losun á samsvarandi magni GHL annars staðar eða b) fjarlægja samsvarandi magn GHL úr andrúmsloftinu.
Til þess að sporna gegn loftslagsbreytingum þurfum við fyrst og fremst að draga úr losun GHL. Þetta getum við gert með því að draga úr neyslu og þar með myndun úrgangs, endurvinna þann úrgang sem óhjákvæmilega fellur til, velja vistvænar samgöngur og loftslagsvænna mataræði, minnka matarsóun, nýta hluti betur og lengur og temja okkur orkusparnað. Þegar ekki er hægt að draga frekar úr losun er hægt að fjárfesta í kolefnisjöfnunarverkefnum sem binda eða koma í veg fyrir losun GHL. Kolefnisjöfnun er því ekki „vottorð til þess að menga meira“ heldur á hún ávallt að koma í kjölfar aðgerða til samdráttar.