Leiðarvísir að betri samgöngusamningi kominn út!

Við erum mjög spennt að kynna fyrir ykkur nýjan leiðarvísi að betri samgöngusamningi. Um er að ræða bækling sem gefinn er út af Grænum skrefum til að aðstoða vinnustaði við að gera enn betri samgöngusamninga. Samgöngusamningar eru afar mikilvægir þar sem ferðir starfsmanna til og frá vinnu oftast langstærsti losunarvaldurinn sem tengist venjulegri skrifstofustarfsemi. Samgöngusamningurinn er eitt besta tækið sem vinnuveitendur hafa til að hvetja starfsmenn til vistvænna samgangna.

Góð ráð og reglur Skattsins

Í bæklingnum eru tekin saman ráðleggingar sem byggja á rannsóknum um atferlisfræði. Við fjöllum einnig um reglur skattsins um samgöngustyrki, sem er að sjálfsögðu mikilvægt að fylgja. Við bendum þó á að samgöngusamningum þarf ekki að fylgja styrkur, og því er töluvert meira svigrúm um hvernig hægt er að móta samninginn en reglur Skattsins um styrki kveða á um.

Horfum til AUSTurs

Í stórum dráttum snúast ráðleggingarnar um að gera það auðveldara, unaðslegra, samfélagslegra og tímanlegra að gera samning (horfum til AUSTurs). Til dæmis er hægt að auðvelda einhverjum að gera samgöngusamning að bæta fjarvinnu við samninginn. Samgöngustyrkir eru klassísk leið til að gera samninginn unaðslegri, en við bendum einnig á aðrar leiðir til að verðlauna starfsfólk. Við mælum með því að virkja starfsfólkið við gerð samningsins til þess að nýta þekkingu þeirra, auka sátt um ákveði hans og fá fleiri til að gera samning. Við hvetjum líka vinnuveitendur til þess að vera með tímanlegar áminningar um samninginn, til dæmis rétt fyrir sumartímann þegar margir hafa hug á því að byrja að hjóla.

Samgöngusamningur fyrir alla

Það var okkar metnaður með þessum bæklingi að sem flestir geri samgöngusamning. Við teljum að það sé mikilvægt að hægt sé að laga samgöngusamninginn að aðstæðum. Eftir lesningu bæklingsins vonum við að öllum sé ljóst að bæði stofnanir með mikið og lítið fjárhagslegt rými geta boðið upp á samgöngusamning. Það á líka að vera hægt að velja samgöngumáta með minni neikvæðum umhverfisáhrifum bæði í dreifbýli og í þéttbýli. Að sama skapi eiga bæði starfsmenn sem búa langt frá og nálægt vinnustað að geta gert samning. Allt er betra en ekkert!