Hver tróð þessa grænu slóð? Ánægjukönnun Grænna skrefa
Umhverfisstofnun hefur stýrt verkefninu Græn skref í ríkisrekstri frá árinu 2014, en það ár hófu 18 stofnanir þátttöku. Verkefnið hefur farið ört stækkandi síðan, en í lok árs 2022 voru 174 skráðir þátttakendur í Grænu skrefin. Sem hluti af ársáætlunarverkefni Umhverfisstofnunar, hvers markmið er að draga fram reynslu þátttakanda í Grænu skrefunum, var spurningakönnun send út til stofnana og fyrirtækja í meirihlutaeigu ríkisins þar sem óskað var eftir þátttöku og reynslusögum. Svörun var góð, en 101 tóku þátt.
Niðurstöður könnunarinnar sýndu mikla ánægju með verkefnið, þar sem 84% sögðust ánægð eða mjög ánægð. Í ljósi þeirra breytinga sem áttu sér stað þegar þátttaka í verkefninu varð skylda, þykja þetta afar ánægjulegar tölur.
Ávinningur verkefnisins var af flestum talin aukin umhverfisvitund, eða af yfir 90% svarenda. Þar á eftir þótti samdráttur í losun ávinningur af um 70% svarenda, og um helmingur nefndi bætta verkferla. Fjárhagslegur sparnaður og bættur starfsandi var einning nefndur af þónokkrum.
Varðandi hjálpsemi starfsfólks Grænna skrefa fannst tæplega 90% svarenda starfsólk hjálplegt eða mjög hjálplegt. Nokkrar ábendingar til bóta voru nefndar, þar á meðal að aðgerðum gæti verið forgangsraðað eftir mikilvægi, biðtími eftir svörum styttur sem og að skrefin yrði sniðin eftir ólíkri starfsemi, og eru allar teknar vel til greina.
Heimasíðan var af 94% talin hjálpleg eða mjög hjálpleg, en bent var að á meira mætti vera af merkingum og miðlægu kynningarefni, og erum við að vinna í því.
Áskoranir sem svarendur mæta við innleiðingu verkefnisins eru nokkrar. Þar á meðal finnst 70% stærsta áskorunin vera að virkja samstarfsfólk, á meðan rúmlega 30% nefna samskipti við rekstraraðlia. Þó svo þau samskipti geti verið krefjandi þá þökkum við sérstaklega fyrir það samtal sem á sér stað, enda hefur það víðtækari áhrif verkefnisins í för með sér.
Aukin útgjöld og skortur á stuðningi yfirstjórnar voru einnig meðal áskorana sem þátttakendur mæta. Nokkrir sögðust vilja meiri eftirfylgni og aðgerðir eftir að fimmta skrefinu hafi verið lokið, sem er gaman að sjá.
Við erum statt og stöðugt að vinna í því að bæta verkefnið, og meðal annars höfum við fundað með stjórnendum, þar sem þeim var bent á mikilvægi þeirra þátttöku. Þar að auki hélt Snjólaug Ólafsdóttir, umhverfisverkfræðingur, erindi á morgunfundi Grænna skrefa um hvernig virkja mætti starfsfólk til þátttöku, en hér má finna upptöku af því.
Við þökkum ykkur kærlega fyrir þátttöku í bæði könnuninni og verkefninu sjálfu. Sem stofnanir sem starfa að almannahag er undirstaðan, náttúran sjálf, nauðsynlegur hluti af þeirri vegferð. Við erum þakklát fyrir samvinnuna við að halda jörðinni lífvænlegri fyrir framtíðarkynslóðir.