Grænu skrefin og hringrásarhagkerfið

Stór hluti aðgerða Grænu skrefanna hafa með hringrásarhagkerfið að gera, þar sem leitast er við að koma í veg fyrir að auðlindir verði að úrgangi, með því að neyta minna, deila, gera við, endurnota, endurframleiða og endurvinna.

Dæmi um aðgerðir Grænna skrefa sem tengjast hugmyndinni um hringrásarhagkerfi eru að; nota ekki einnota borðbúnað eða einstaklingsinnpökkun matvæla, að draga úr prentun á pappír, að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis, að fara vel með orku og hita, að standa fyrir skiptimörkuðum fyrir starfsfólk, að deila skrifstofuvörum, að greina úrgangsmyndun í því sjónarmiði að draga úr úrgangi og að flokka vandlega allan úrgang sem fellur til.

Austurbrú gaf út myndband í upphafi þessa árs sem útskýrir hugmyndina um hringrásarhagkerfið á skemmtilegan og einfaldan hátt. Myndbandið var unnið af Elínu Elísabetu Einarsdóttur, Rán Flygenring og Sebastian Ziegler og Grænu skrefin fengu góðfúslegt leyfi til að deila myndbandinu svo það mætti ná til sem flestra.