Myndir af réttunum sem eru í boði í mötuneyti starfsmanna í MA

Grænmetisfæði alla daga hjá starfsfólki Menntaskólans á Akureyri

Stór hluti aðgerða Grænu skrefanna snýr að fæði starfsfólks, og það er góð ástæða fyrir því. Við getum haft mikil áhrif á kolefnisspor okkar með vali á fæðutegundum og með því að sporna gegn matarsóun. Meðal þess sem Grænu skrefin leggja til er að auka úrval grænkerarétta, hafa umhverfisvænasta réttinn efst á matseðli (þegar fleiri en einn eru í boði) og að auka hlutfall lífrænna matvæla á matseðli.

Það reyndist einfalt fyrir Menntaskólann Akureyri að safna stigum fyrir þessi atriði, en mötuneyti starfsmanna er rekið með það að sjónarmiði að matarsóun sé sem allra minnst, og eingöngu er boðið upp á grænmetis- og grænkerafæði sem er í senn heilsusamlegt, litríkt og gómsætt. Við úttekt á þriðja skrefinu hjá MA vakti þetta sérstaka athygli. Okkur hjá Grænu skrefunum lék forvitni á að vita hvernig gengi að reka grænmetismiðað mötuneyti og hvernig starfsfólkið tæki því, en um 25-35 starfsmenn snæða þar daglega í hádeginu. An-Katrien greindi frá því að hún sé búin að elda fyrir starfsfólkið í um sjö ár, starfsfólkið hafi almennt tekið henni og grænmetisfæðinu mjög vel og jafnvel beðið hana um að halda kvöldnámskeið í matreiðslu grænmetisrétta svo þeir geti boðið upp á svipaðan mat heima við.

Í innkaupum horfir An-Katrien til þess að kaupa sem mest lífrænt, og mat sem framleiddur er í nærumhverfi þegar það er mögulegt. Hún segir oft erfitt að komast hjá plastumbúðum, og að matvælafyrirtæki og birgjar þyrftu að taka sig á í þeim efnum. Allt er eldað frá grunni í eldhúsinu af henni og öðrum starfsmanni, og það er fyrirfram skráning í matinn til að hægt sé að elda nákvæmt magn. Á föstudögum er boðið upp á afganga vikunnar, og kapp lagt á að farga sem minnstu.

 

Dæmi um rétti sem í boði eru í mötuneyti starfsfólks MA

 

Við báðum An-Katrien um dæmi af matseðli tveggja vikna, sem gæti orðið öðrum mötuneytum til innblásturs:

  • Búlgur-linsubaunasalat ásamt grilluðu eggaldini með saffran-jógurtsósu og granateplafræjum.
  • Chana masala/indverskt kjúklingabaunakarrý með sítrónuhrísgrjónum, naan-brauði og gúrku-jógúrtsósu.
  • Ofnbökuð egg á tómatsósu með papriku, kóríander og pistasíuhnetum (shakshuka), ásamt brauði og fersku salati.
  • Orzo-risotto með ferskum kirsuberjatómötum og basiliku.
  • Grænbaunasúpa með kókosmjólk, myntu og lime.
  • Heilhveiti-pasta með grilluðu hvítkáli, sítrónu, chilli og salati.
  • Indverskt dahl úr rauðum linsubaunum ásamt hrísgrjónum og naan-brauði.
  • Grillaðar sætar kartöflur með rjómakenndri sítrónugrassósu, grænmetisbollum, heimagerðri harissa sósu og salati.

 

 

An-Katrien og Oddrún að störfum

 

Við þökkum An-Katrien kærlega fyrir að deila með okkur matseðli og myndum.