Baunir og belgjurtir

Fögnum baununum!

Í gær, þann 10. febrúar, var alþjóðlegur dagur belgjurta – eða þess sem við köllum baunir í daglegu tali hér á Íslandi.

Það eru margar góðar ástæður fyrir að hampa þessari mikilvægu og góðu fæðu og Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna hefur hvatt fólk til að auka neyslu belgjurta vegna þess hve heilsusamlegar þær eru fyrir okkur og fyrir umhverfið og loftslagið.

 

 

Eins og kemur fram á skýringarmyndinni sem fylgir fréttinni þarf 1.250 lítra af vatni til að rækta 1 kg af linsubaunum á meðan það þarf 12.000 lítra af vatni til að framleiða 1 kg af nautakjöti.

Ræktun belgjurta bætir auk þess frjósemi jarðvegs og getur því dregið úr þörf á tilbúnum áburði. Kolefnisspor bauna er mun lægra en kolefnisspor kjöts, en baunir eru fyrirtaks próteingjafi og afar næringarríkar. Hér má lesa meira um næringarfræðilega kosti belgjurta og bauna fyrir áhugasöm.

Við hvetjum þátttakendur Grænna skrefa til að auka hlut bauna í mötuneytum sínum og til að njóta þess að borða falafel, hummus, chilli, dahl eða einfaldlega bakaðar baunir í tómatsósu um helgina!