Fyrirlestur um lífræna framleiðslu

Í næstu viku ætlar Berglind Häsler, verkefnastjóri Lífræns Íslands, að vera með erindi fyrir okkur í Grænu skrefunum á Teams.

Berglind ætlar að ræða stöðu og horfur lífrænnar framleiðslu á Íslandi. Fjölmargar erlendar rannsóknir sýna fram á ágæti lífrænnar ræktunar – fyrir umhverfið og lýðheilsu. Í samræmi við það hafa löndin sem Ísland ber sig gjarnan saman við sett sér langtíma markmið um hvernig lífræn framleiðsla skuli aukin. Ísland er algjör eftirbátur í þessum efnum og mýtan um að allt næstum lífrænt hér á landi – ansi lífsseig. Berglind hefur sjálf stundað lífræna ræktun á Karlsstöðum í Berufirði og framleiðir nú Bopp, sem er lífrænt vottuð vara frá Havarí.

Fyrirlesturinn fer fram þann 2. desember frá kl. 11-12. Berglind talar í um hálftíma og svo gefst ykkur kostur á að senda inn spurningar. Fundurinn verður tekinn upp og birtur á heimasíðu Grænna skrefa.

Við hvetjum ykkur til að deila fundarboðinu áfram innan ykkar stofnunar og sérstaklega til starfsmanna í eldhúsi eða aðkeyptrar mötuneytisþjónustu. Í Innkaupastefnu matvæla fyrir ríkisaðila leggja stjórnvöld áherslu á að auka hlut lífrænna matvæla hjá stofnunum ríkisins  og höfum við lagt áherslu á þetta í Grænu skrefunum. Það verður því fróðlegt að heyra hvað Berglind hefur að segja og vonandi kemur hún með góð ráð fyrir okkur um hvernig við getum aukið innkaup á lífrænum matvælum – umhverfi og starfsfólki til góða.

Hér er linkur á fundinn (uppfærður 2. des)