Fræðsla á mannamáli um losunarbókhald Íslands
Umhverfisstofnun fór nýlega af stað með fræðsluverkefnið Umhverfisvarpið. Um er að ræða rafræna fræðslu á vefnum þar sem sagt er frá hinum ýmsu verkefnum stofnunarinnar.
Umhverfisvarp miðvikudagsins var helgað loftslagsmálum en í því kynntu sérfræðingar í teymi loftslags og loftgæða losunarbókhald Íslands sem snýr að gróðurhúsalofttegundum. Stiklað var á stóru um helstu niðurstöður losunarbókhaldsins, sem og gefin innsýn inn í hvernig bókhaldið er sett upp og tengsl losunarþátta við lifnaðarhætti okkar. Þá var farið aðeins í sögu alþjóðlegs loftslagssamstarfs, fjallað um þær skuldbindingar sem Ísland hefur gengist undir í loftslagsmálum og þær settar í samhengi við þá vinnuferla og kerfi sem unnið er eftir.
Fram kom að miðað við reiknaða losun síðustu ára, og áætlaða losun 2019 og 2020, er losun Íslands talsvert meiri en við höfum fengið úthlutað fyrir 2. tímabil kýótóbókunarinnar (2013-2020). Því liggur fyrir að íslenska ríkið mun þurfa að kaupa losunarheimildir með þeim kostnaði sem þeim fylgja.
Ísland hefur skuldbundið sig til að draga úr losun um 29% til ársins 2030 miðað við árið 2005 vegna Parísarsamningsins, en ef horft er á þróunina undanfarin ár þurfum við öll að leggjast á eitt til að komast hjá því að fara fram úr losunarheimildum okkar aftur, með bæði þeim fjárhagslega og umhverfislega kostnað sem því fylgir.
Við mælum með að þið hlustið á Umhverfisvarpið og fræðist betur um hvernig þessum málum er háttað og leggið í kjölfarið ykkar lóð á vogaskálarnar til að betur gangi á næstu árum. Enda geta allir eitthvað en engin allt!