Fiskistofa komin með 2 skref um allt land

Við óskum Fiskistofu til hamingju með að vera komin með 2. Græna skrefið. Fiskistofa er með starfssöðvar út um allt land og hafa þær allar hlotið viðurkenningu fyrir 2. skrefið. Til hamingju Hafnafjörður, Akureyri, Höfn, Vestmannaeyjar, Stykkishólmur og Ísafjörður!

Okkur langar til þess að hrósa Fiskistofu sérstaklega fyrir að nýta Grænu skrefin til þess að auka samvinnu á milli starfsstöðva Fiskistofu. Þau líta ekki bara á verkefnið sem einhvern tékklista sem þarf að klára, heldur einskonar hópefli fyrir starfssemi Fiskistofu. Við hvetjum fleiri til þess að taka sér þetta til fyrirmyndar.

Til að taka annað skrefið hefur Fiskistofa meðal annars skilað Grænu bókhaldi, farið sparlega með rafmagn og hita, flokkað í alla vega sjö úrgagnsflokka, dregið úr pappírsnotkun, hugað að aðgengi fyrir hjólandi, og skipt yfir í lífrænt kaffi. Fiskistofa þurfti heldur ekki heimsfaraldur til að byrja að nota fjarfundarbúnað heldur hefur um langt skeið stundað fjarfundi, með tilheyrandi olíusparnaði. En það fylgja því vissulega áskoranir að vera umhverfisvænn á sama tíma og maður sinnir eftirliti um allt land. Það er ekki gott ef Fiskistofa dregur úr eftirliti sínu, enda er heilbrigði fiskistofnanna okkar mikilvægt umhverfismál. En til að hafa eftirlit með veiðum þurfa starfsmenn Fiskistofu oft að keyra langar vegalengdir og þar duga enn sem komið er ekki rafbílar eða bílar með innlendum orkugjöfum. Við vitum samt að Fiskistofa fylgist vel með þróuninni og vonandi verður hægt að draga markvisst úr losun per ekinn kílómeter.

Við óskum Fiskistofu enn og aftur til hamingju með þennan áfanga!