Átaksverkefni lokið með 500 Grænum skrefum á einu ári

Nú er komið að tímamótum í Grænum skrefum en fyrir ári síðan voru tímabundið ráðnir í verkefnið þrír starfsmenn til þess að mæta aukinni eftirspurn stofnanna við aðstoð innleiðingar Grænna skrefa og vinnu við loftslagsstefnu.

Þessa miklu eftirspurn má rekja til nokkurra þátta; vitundarvakningar í umhverfis- og loftslagsmálum og almenns áhuga á að gera betur í þeim efnum, aukinnar áherslu Umhverfisstofnunar og stjórnvalda á málaflokkinn og þess að verkefnið hafði breyst úr því að vera valkvætt yfir í að vera hluti af rekstri allra ríkisaðila.

 

 

Á þessu eina ári náðu starfsmennirnir þrír í samstarfi við vinnustaði ríkisins um allt land að klára um 500 Græn Skref. Að baki hverju Grænu skrefi eru 25-40 aðgerðir svo mikið hefur unnist í umhverfismálum ríkisins á þessum tíma.

 

Nú heldur lífið sinn vanagang og verður aftur aðeins eitt stöðugildi í skrefunum. Það þýðir samt ekki að stofnanir muni hægja á í umhverfisstarfi sínu, heldur vonandi þvert á móti leggja enn meira á sig. Vafalaust munu þau samtöl, leiðbeiningar og hvatning sem fengust í átakinu reynast góður grunnur í áframhaldandi vegferð Grænna skrefa.

 

Starfsmennirnir tveir sem deila með sér starfshlutfallinu sem eftir verður í verkefninu munu síðan gera sitt allra besta til að halda þessum árangri lifandi. Óhjákvæmilega mun svartími fyrirspurna vera lengri en áður en þátttakendur eru hvattir til að leita í viskubrunn þeirra sem hafa troðið slóðina og stigið skrefin á undan á samráðsvettvangi Grænna skrefa en um leið nýta vel allar leiðbeiningar sem má finna á vef verkefnisins.

 

Við þökkum Kristínu Helgu, Hjördísi og Jóhannesi Bjarka fyrir frábært ár í Grænum skrefum!