Fjölbrautaskólinn við Ármúla með 1. skrefið

Í gær fékk Fjölbrautaskólinn við Ármúla (FÁ) afhenta viðurkenningu fyrir að hafa lokið við 1. Græna skrefið. Umhverfismálin eru ekki ný af nálinni í FÁ en skólinn var til að mynda fyrsti framhaldsskólinn til að hljóta Grænfánann og það árið 2006. Hugað er að umhverfinu bæði í rekstri sem og kennslu og hefur skólinn sett sér sjálfbærnistefnu og metnaðarfulla aðgerðaáætlun, umhverfisstefnu og samgöngustefnu.

Magnús Ingvason skólameistari, Vigfús Þór Jónsson, umsjónarmaður fasteigna, Jóhanna Sturlaugsdóttir í umhverfisráði, Birgitta Steingrímsdóttir frá Umhverfisstofnun, Tinna Eiríksdóttir og Bryndís Valsdóttir í umhverfisráði og Kristrún Birgisdóttir aðstoðarskólameistari.

Sjálfbærninefnd og umhverfisráð skólans hafa á að skipa fulltrúum starfsfólks og nemenda. Umhverfisfræði er kennd í vali en til stendur að gera hana að skyldufagi. Á hverju vori er umhverfisvika þar sem t.d. hafa verið fengnir fyrirlesarar eru til að fjalla um umhverfismál, markaður með umhverfisvænum vörum verið settur upp og notuð föt seld og ágóðinn gefinn til Votlendissjóðs.

Vigfús Þór Jónsson tók við viðurkenningunni fyrir hönd FÁ.

Umsjónarmaður fasteigna, Vigfús Þór Jónsson, sér til þess að hlutir fái framhaldslíf, að spilliefnum og öðrum úrgangi sé komið í endurvinnslu eða fargað á réttan hátt og plokkar rusl á lóðinni svo eitthvað sé nefnt. Í úttekt Umhverfisstofnunar mátti skynja mikið þakklæti frá starfsfólki í garð Vigfúsar og að þeirra sögn er það honum að miklu leyti að þakka hversu vel umhverfisstarfið í rekstri skólans hefur gengið.

Við óskum FÁ til hamingju með áfangann og hlökkum til að vinna með þeim í næstu skrefum.

Á upplýsingavegg um umhverfismál sem nemendur sjá um kennir ýmissa grasa.

 

Góð ráð!