Þjóðskjalasafn Íslands lauk 4 skrefum í einu!

Fyrir rétt rúmu ári var Þjóðskjalasafn Íslands skráð til leiks í Grænu skrefunum, en í dag tóku þau við viðurkenningu fyrir fjögur skref á einu bretti!

Græni hópurinn tekur á móti viðurkenningu fyrir Grænu skrefin fjögur.

Græni hópurinn, undir styrkri leiðsögn Önnu Elínborgar Gunnarsdóttur sviðsstjóra, hefur fylgt eftir innleiðingu skrefanna í starfsseminni og hefur það verið aðdáunarvert að fylgjast með jákvæðni og röggsemi hópsins. Á þessu eina ári hafa þau skilað Grænu bókhaldi, gert samgöngu- og umhverfisstefnu, innkaupagreiningu og innkaupastefnu, greiningu á úrgangsmyndun og lagt í aðgerðir til þess að draga úr sóun og minnka úrgang. Á árinu fór fram endurskipulagning og nauðsynleg endurnýjun í húsnæði ÞÍ og því féll til óvenju mikill grófúrgangur, en húsnæðisstjórinn Bjarni Þórðarson hefur kappkostað við að nýta það sem hægt er áfram og flokka annan úrgang til endurvinnslu eins vel og völ er á.

Grænu skrefin hafa verið kynnt vel innanhúss, Stjörnu Sævar kom í heimsókn með erindi og haldnir voru Grænir dagar í byrjun mars þar sem boðið var upp á fræðslu um hjólareiðamenningu og vinnustofur um umhverfismál. Í vinnustofunum gafst starfsfólki tækifæri á að koma fram með athugasemdir, hugmyndir og tillögur að aðgerðum.

Hjólað í vinnuna var að vonum tekið föstum tökum í ár og því tvöfalt tilefni fyrir starfsfólk ÞÍ að skella í Græn skrefa köku og kræsingar og veita viðurkenningar fyrir starfsfólkið sem lagði sig „extra“ fram fyrir umhverfið og heilsuna.

Innilega til hamingju með árangurinn öll sömul og við hlökkum til að ráðast í 5. skrefið og loftslagsstefnuna með ykkur!

Glæsileg Græn skrefa kaka á boðstólum.

Verðlaunaðar fyrir flottan árangur í Hjólað í vinnuna!