Skipulagsstofnun stígur fyrsta græna skrefið

Grænar plöntur taka hlýlega á móti gestum Skipulagsstofnunar og gleðja auga þeirra sem þar starfa um leið og þær keppast við að bæta loftgæðin á vinnustaðnum. Skipulagsstofnun var meðal fyrstu stofnana ríkisins sem á dögunum stigu grænt skref í sínum rekstri. 

 

Hjá Skipulagsstofnun er nýtnin í fyrirrúmi. Þegar nýlega þrengdi að stofnuninni þurfti að endurskipuleggja nýtingu húsnæðisins og samnýta skrifstofur meira en áður. Við þær breytingar kom í ljós að mörg skrifborðanna sem áður voru í notkun voru of stór til að hægt væri að koma tveimur eða fleirum inn á eina skrifstofu. Í stað þess að kaupa ný húsgögn var brugðið á það ráð að fá gefins borð  sem Síminn var hættur að nota. Annað dæmi eru möppur og skjalahólf sem tæmd eru þegar pappíranna er ekki lengur þörf og þau geymd á vísum stað  þannig að hægt sé að grípa til þeirra þegar þarf, í stað þess að kaupa nýtt. 

Hjá Skipulagsstofnun er eingöngu notaður margnota borðbúnaður , aðeins er keyptur umhverfisvottaður pappír  og þjónusta við þrif er keypt af svansvottuðu fyrirtæki.

   

Og grænu plönturnar , sem víða er að finna um vinnustaðinn, eru ekki bara til skrauts. Ef marka má rannsókn á vegum bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA geta plöntur unnið gegn 99% eiturefna í andrúmslofti innanhúss og gegna því mikilvægu hlutverki við að bæta loftgæði á vinnustaðnum.