Vistvænt hjá Landmælingum Íslands

Samgöngumál eru tekin föstum tökum hjá Landmælingum Íslands sem staðsettar eru á Akranesi.  Landmælingar tóku sitt fyrsta græna skref á dögunum og voru meðal fyrstu stofnana landsins sem aðlöguðu starfsemi sína Grænum skrefum í ríkisrekstri. 

 

Þótt ákvörðunin hafi ekki kallað á miklar breytingar í starfseminni voru sóknarfæri hér og þar sem nýtt voru til að stuðla að umhverfisvænna starfsumhverfi. Meðal annars voru ruslafötur aflagðar  inni á skrifstofunum í því skyni að auka hvata fyrir starfsmenn til að draga úr úrgangi. Þess í stað eru vel merkt flokkunarílát  fyrir rusl á einum stað á vinnustaðnum.

 

Staðsetning Landmælinga á Akranesi hefur orðið stjórnendum stofnunarinnar hvati til að huga sérstaklega að samgöngumálunum. Sex starfsmenn stofnunarinnar búa í Reykjavík. Til að draga sem mest úr útblæstri vegna ferða er sá háttur hafður á að tveir nýta sér þjónustu strætó til og frá vinnu en fjórir aka saman í Hybrid  bíl. Stór hluti þeirra sem búa í grennd við vinnustaðinn hjóla eða ganga til og frá vinnu og er ríflega helmingur starfsmanna með samgöngusamning við Landmælingar. Þá hefur stofnunin ávallt verið öflugur þátttakandi í átakinu Hjólum í vinnuna og er ríflega af hjólagrindum  við vinnustaðinn.  Loks hefur stofnunin yfir tveimur litlum díselbílum að ráða sem starfsfólk nýtir til að sinna fundum og öðrum vinnutengdum erindum utan stofnunar á vinnutíma, auk þess sem strætómiðar eru alltaf  aðgengilegir á vinnustaðnum.