Landgræðslan stígur fimmta skrefið
Landgræðslan hefur nú lokið úttekt á fimmta Græna skrefinu eftir að hafa lokið skrefum tvö til fjögur rétt fyrir síðustu jól. Starfsfólk stofnunarinnar er mjög meðvitað um umhverfismál og hefur farið fjölbreyttar leiðir til þess að minnka umhverfisáhrif af sínum rekstri, meðal annars með ekki-henda-neinu-nefndinni, sem reynir að finna hlutum sem annars væri hent nýtt heimili og að auka hlutfall rafbíla stofnunarinnar.
Stofnunin hefur skuldbundið sig til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í rekstri um 40% fyrir árið 2030 miðað við 2018, ásamt því að draga úr losun vegna áburðarnotkunar og ná góðum árangri í kolefnisbindingu í gróðri og jarðvegi.
Til þess að viðhalda þeim góða árangri sem náðst hefur með Grænu skrefunum og loftslagsstefnu var sett upp umhverfisstjórnunarkerfi Landgræðslunnar með greinargóðum verklagsreglum og verkskiptingu.
Við óskum Landgræðslunni til hamingju með flottan árangur og hlökkum til að fylgjast áfram með þeim!