Með hækkandi sól og fækkandi samkomutakmörkunum eykst viðburðahald, staðfundum fjölgar og loksins er hægt að halda ráðstefnur sem frestast hafa ítrekað. Það er vissulega kærkomið að fá tækifæri til að hittast aftur í eigin persónu eftir strembna tíma, en þó er vert að halda áfram í góða siði sem við tileinkuðum okkur síðastliðin tvö ár.

Fjarfundarmenning hefur tekið stakkaskiptum undanfarin ár, en fjarfundir fela í sér mun minni losun en staðfundir, sérstaklega þegar fólk kemur víða og fjarri að. Með því að taka samgönguþáttinn út úr fundarhöldum græðum við tíma, drögum úr losun og gerum fólki sem býr lengra frá kleift að standa jöfnum fæti þeim sem starfa á höfuðborgarsvæðinu.

Við minnum á ákvörðunartökutréð okkar fyrir flugferðir og hvetjum til þess að hver stofnun eða vinnustaður geri sér verklag þegar ákvarðanir eru teknar um hvort betra sé að halda staðfund eða fjarfund. Blandaðir fundir eru oft góður kostur, þar sem hluti fundargesta hittist á staðfundi og hluti í fjarfundarbúnaði. Þegar blandaðir fundir eru haldnir er mikilvægt að sjá til þess að fjarskiptabúnaður sé í lagi, að fólk heyri og sjái vel og hafi möguleika á að ávarpa fundinn til jafns við þau sem sitja hann í eigin persónu.

Njótum þess að hittast þegar það á við og takmörkum losun af ferðalögum eins og hægt er þess á milli.