Ásdís Nína Magnúsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun.

Frjóir hugar í Grænum skrefum – aðgerðavinna á Morgunfundi

Á Morgunfundi Grænna skrefa sem haldinn var þann 5. nóvember sl. var þátttakendum skipt niður á borð þar sem þeir gátu deilt reynslu af innleiðslu skrefanna, gefið góð ráð og rætt næstu skref. Lagt var fyrir verkefni þar sem þátttakendurnir hugsuðu upp aðgerðir sem styðja við markmið um samdrátt um losun. Það var ljóst að frjóir hugar voru komnir saman, og ýmsar góðar hugmyndir urðu til. 

Samgöngusamningar og orkuskipti í samgöngum voru þemu sem komu upp á nánast hverju borði. LED-væðing í lýsingu, fjarvinnustefna, ákvarðanatökuferill fyrir flugferðir og staðsetning ruslatunna innan bygginga komu einnig oft upp. 

Ásdís Nína Magnúsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun.

Ásdís Nína Magnúsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun undirbýr gesti undir borðaverkefni, þar sem lögð var áhersla á að finna aðgerðir sem er tiltölulega létt að innleiða, en hafa mikinn ávinning í för með sér.

Þær aðgerðir sem vinnuhóparnir voru sammála um að væru hvað auðveldastar í framkvæmd en hefðu skilað þeim mestum ávinningi voru að: 

  • Hvetja starfsmenn til að vinna heima einu sinni til tvisvar í viku.  
  • Leggjast í gerð fjarvinnustefnu.
  • Útbúa ákvörðunartré fyrir flug. 
  • Bæta aðstöðu fyrir starfsmenn sem koma til vinnu með vistvænum hætti. 
  • Skipta jarðefnaeldsneytisbílum út fyrir hreinorkubíla. 
  • Bjóða starfsmönnum upp á samgöngusamninga og auglýsa þá vel. 
  • Regluleg flokkunarfræðsla fyrir starfsmenn 

Grænu skrefin eru nú þegar með lifandi aðgerðarbanka sem stofnanir og fyrirtæki í meirihluta ríkiseigu eru hvött til að nýta sér. Eins og titill skjalsins ber með sér er um að ræða skjal sem er í stöðugri mótun og við munum færa nýjar hugmyndir inn í skjalið.  

Aðgerðabanki Grænna skrefa verður uppfærður í kjölfar hugmyndanna sem fram komu í hópavinnunni. Sú vinna ætti að klárast í vikulok og munum við birta frétt um það þegar þar að kemur. 

Verkefnið var unnið á tólf borðum og komu fram 112 tillögur að 83 mismunandi aðgerðum. Flestar tillögurnar sneru að flokkun og minni sóun (30 tillögur) og samgöngum (30 tillögur) en einnig var mikið um aðgerðir í miðlun og stjórnun (22 tillögur).