Minnkum lífrænan úrgang – setjum kaffikorginn í beðin
Í stað þess að henda kaffikorginum í ruslið eða láta hann fara með lífræna hlutanum í moltugerð, af hverju ekki að nota þetta gæðaefni beint í garðinn og á pottaplönturnar? Þá er hægt að safna kaffikorgi sérstaklega og bjóða starfsfólki að taka hann með sér heim fyrir garðinn.
Kaffikorgurinn hjálpar til við að halda raka í jarðveginum svo plönturnar þorna síður í þurrkum og inniheldur steinefni eins og köfnunarefni, fosfór og kalí sem eru næringarefni fyrir plönturnar.
Bæði er hægt að blanda miklu magni af kaffikorgi við mold til að gera hana súrari en síðan er líka hægt að bæta honum við smátt og smátt. Þegar kaffikorgi er dreift ofaná jarðveginn við plönturnar losna næringarefnin út samfara niðurbroti á honum og gagnast þannig plöntunum yfir lengri tíma. Aðeins þarf að passa að kaffið farið ekki að klumpast saman í moldinni en þá getur það farið að draga til sína raka úr moldinni og plönturnar fái minna.
Kaffikorgur er súr og því gott að bæta honum við moldina fyrir plöntur sem þurfa súrari jarðveg s.s. tómatplöntur, rósir og burkna. Einnig er mælt með að vökva t.d. rósir og burkna með kaffivatni – setja kaffikorg í vatn og sía vatnið áður en því er helt á plönturnar.
Kaffikorgur getur líka verið góður fyrir moltugerð hann bætir við köfnunarefni og hjálpar til við að halda góðum hita á niðurbrotinu.
Ormum finnst kaffikorgur víst mjög góður en ormar bæta við fleiri næringarefnum við jarðveginn um leið og að lofta um hann svo plönturnar þrífast betur. Sniglar forðast einnig kaffi svo að dreifa kaffikorgi í kring um plöntur sem sniglar éta getur haldið þeim frá.
Langbest er að kaffið sé lífrænt ræktað, þá getum við verið viss um að engin slæm eitur- eða varnarefni fylgi með kaffinu.
PS – kaffikorg er víst mjög gott að nota sem húðskrúbb bæði á líkama og andlit líka 🙂