Aðalbygging HÍ nær 3a Græna skrefinu

Í gær fékk Aðalbygging HÍ afhenda viðurkenningu fyrir að taka 2 og 3 Græna skrefið, en skrefunum var formlega náð í lok árs 2020. Innilega til hamingju! Í tilefni tók Kristinn Ingvarsson ljósmyndari mynd af því þegar ég (Gró) afhendi rektori Jóni Atla Benediktsyni formlega viðurkenningarskjalið. Fyrir aftan þau eru frá vinstri: Jón Sigurður Pétursson, nýr tengiliður Grænna skrefa, Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs og Sólrún Sigurðardóttir, verkefnastjóri sjálfbærni- og umhverfismála.

Hvað eru Græn skref?

Fyrir ykkur sem ekki vita þá eru Grænu skrefin verkefni sem Umhverfisstofnun hefur umsjón með. Markmið Grænu skrefanna er að styðja við og efla umhverfisstarf ríkisaðila. Skrefin eru fimm talsins, en til hvers skrefs reiknast fjöldinn allur af aðgerðum. Íslensk stjórnvöld hafa í Loftlagsstefnu Stjórnarráðsins sett þá kröfu að allar ríkisstofnanir uppfylli öll fimm Grænu skrefin fyrir árslok 2021. Með því að ljúka þriðja skrefi í lok árs 2020 er Háskólinn því að taka þetta föstum tökum.  Til að taka þriðja skrefið hefur Aðalbygging Háskóla Íslands meðal annars farið sparlega með rafmagn og hita, jarðgert lífrænan úrgang, dregið úr matarsóun með því að bjóða upp á minni skammta í Hámu, sett afslátt á vörur sem eru að renna út, boðið starfsmönnum upp á rafhjól fyrir styttri vinnutengdar ferðir og keypt vottaðar umhverfisvænar vörur.

Litlar breytingar skila miklum árangri í stórri stofnun

Hver aðgerð í Grænu skrefunum getur oft á yfirborðinu virst lítilvæg. En í stofnun eins og Háskóla Íslands þar sem yfir 1500 manns starfa, og þar sem um 13.000 nemendur mennta sig, getur hver lítil breyting haft gríðarmikil áhrif. Háskólinn býr líka að þekkingu starfsmannanna, en margir hverjir eru einmitt að rannsaka áhrif loftlagsbreytinga og annarra umhverfisáhrifa á lífríki jafnt sem fólk. Stúdentar eru einnig virkt hreyfiafl, sem sætta sig ekki lengur við óumhverfisvæna hætti og vilja sjá aðgerðir. Núna. Strax.

Þekking frá og til háskólanna

Háskólinn hefur því góðar forsendur til að ná árangri í Grænu skrefunum, enda eiga þau uppruna sinn í háskólastarfsemi. Grænu skrefin eru gerð að fyrirmynd Green offices sem var þróað í Harvard háskóla. Harvard háskóli hefur ekki látið þar við sitja heldur hefur honum tekist að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 20% á undanförnum árum þrátt fyrir að háskólinn hafi stækkað í umfangi og aukið orkunotkun sína. Harvard er því ekki bara fyrirmynd þegar kemur að akademískum árangri, heldur líka í umhverfismálum.

Háskólinn ein stofnun eða margar einingar?

En með stærð og starfsemi Háskóla Íslands koma líka miklar áskoranir. Háskólinn er ekki týpísk skrifstofu starfssemi þar sem maður mætir í vinnuna klukkan 9, sest við sína starfsstöð, og situr við þangað til maður fer heim klukkan fimm. Nei, starfsmenn og stúdentar eru á stöðugri hreyfingu. Margir starfa á öðrum vettvangi og fara því fram og tilbaka á milli starfa. Lektorar í fullu starfi þeysast öllu jafna á milli bygginga og kennslustofa. Ég minnist þess þegar ég var sjálf í doktorsnámi að talað var um það að háskólinn héldi í rauninni utan um mörg hundruð fyrirtæki, þar sem hver rannsakandi væri í raun í sjálfstæðum rekstri. Í slíku umhverfi getur verið erfitt að koma til skila upplýsingum og ná fram samhentu átaki í rétta átt. Það er þess vegna sem það er svo mikilvægt að fagna þeim góða árangri sem þið hafið náð með því að ljúka þriðja Græna skrefinu. Slíkur árangur er því ekki sjálfsagður og kemur ekki sjálfkrafa.

Helsta áskorun að bæta samgöngur

Ein helsta áskorun Háskóla Íslands í dag er að vistvæða samgöngur. Samkvæmt eigin útreikningum fellur 90% af losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi Háskóla Íslands til vegna samgangna. Bæði starfsmenn og stúdentar nota í alltof ríkum mæli einkabílinn til að komast í skólann. Einnig taka flug á ráðstefnur og fundir erlendis sinn ríka toll á umhverfið. Háskólinn hefur sett sér markmið um að draga úr þessari losun, bæði til skamms og langs tíma. Til skamms tíma á að fjölga gangandi og hjólandi með því að bæta aðstöðu og hvetja fleiri til að gera samgöngusamning. Til langs tíma á að rafvæða háskólasvæðið, fjárfesta í rafmagnsbifreiðum og fjölga gjaldskyldum bílastæðum fyrir bifreiðar sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti. En auk þess væri hægt að nýta sér fjarkennslu- og fjarfundarbyltinguna sem átti sér stað sem hliðarafurð af heimsfaraldrinum í þágu náttúrunnar. Í þessari byltingu felast mörg tækifæri fyrir háskólastarfsemi og umhverfisvernd, og mikilvægt að setja sér stefnu og markmið um áframhaldandi nýtingu þessarar tækni þegar faraldrinum líkur. Það verður því spennandi að fylgjast með hvernig fjarkennsla og fjarfundir þróast í HÍ eftir að faraldrinum líkur.

Margir sem eiga þakkir skilið

Að lokum langar mig að þakka öllum sem hafa lagt hönd á plóg. Mig langar að þakka Sólrúnu Sigurðardóttur, verkefnastjóri sjálfbærni og umhverfismála, sem er búin að standa sig einstaklega vel að halda utanum þetta verkefni. Hún tekur við af Þorbjörgu Söndru Bakke, sem vinnur núna einmitt í Grænu skrefunum hjá Umhverfisstofnun, og mér finnst ég sjá mjög greinilega að hún hafi lagt góðan grunn. Ég hlakka líka til áframhaldandi samstarfs með Jóni Sigurði Péturssyni sem mun verða tengiliður Grænna skrefa á meðan Sólrún er í fæðingarorlofi. Mig langar til að þakka rektori Jóni Atla Benediktssyni, og Kristni Jóhannessyni sviðstjóra framkvæmda og tæknisviðs fyrir að styðja þessa vegferð. Það er mjög mikilvægt að stjórnendur Háskóla Íslands hafi skýra sýn og stefnu um bætt umhverfismál. Að lokum gerist ekkert án þátttöku starfsmanna og stúdenta. Því vil ég þakka öllum þeim sem hafa lagt hönd á plóg. Flokkað ruslið sitt, prentað báðum megin á blöðin, hjólað í vinnuna, notað margnota kaffimál, slökkt á tölvunni eftir notkun. Safnast þegar saman kemur.  Takk!

 

Fyrir hönd Grænna skrefa

Gró Einarsdóttir