Nýtnivikan hefst á morgun

Á morgun, 21. nóvember, hefst Nýtnvikan og stendur hún yfir til 29. nóvember. Átakið er samevrópskt og hefur það að markmiði að hvetja fólk til að draga úr óþarfa neyslu, nýta hluti betur og draga þannig úr myndun úrgangs.

Í ár er þema vikunnar „það sem ekki sést“ og er þar vísað til alls úrgangs og sóunar sem myndast í framleiðsluferli vöru áður en hún kemst í okkar hendur en einnig mengunar sem verður vegna virkni vöru án þess að við verðum þess sérstaklega vör. Dæmi um úrgang og sóun sem við gerum okkur svo sannarlega ekki alltaf grein fyrir er orkunotkun og kolefnisspor netnotkunar.

Umhverfisstofnun og Reykjavíkurborg bjóða til þriggja stuttra hádegiserinda í vikunni sem við hvetjum ykkur til að auglýsa innan ykkar stofnunar. Það er t.d. mjög sniðugt að útbúa fundarboð þar sem upplýsingar um erindin og hlekkir eru sendir á allt starfsfólk, þá eru allir með þetta í calendar og geta auðveldlega fræðst yfir hádegismatnum. Allar nánari upplýsingar hér.

Í fyrra tókum við saman lista yfir hugmyndir að viðburðum hjá stofnunum í Nýtniviku, margar eru erfiðar í framkvæmd í dag en eitthvað gæti þó nýst sem innblástur! Við hvetjum ykkur til að nýta þessa viku til að vekja athygli á neyslu, nægjusemi og úrgangsmálunum – hvernig sem þið ákveðið að gera það. Svartur föstudagur er einmitt í næstu viku svo það er ekki úr vegi að koma með smá mótvægi inn í neyslubrjálæðið sem oft grípur fólk á þessum tíma árs. Við minnum líka á frétt okkar um grænar gjafir sem á sérstaklega vel við þessa dagana.