Menntaskólinn á Tröllaskaga stígur 3. skrefið

Menntaskólinn á Tröllaskaga hlaut nýverið viðurkenningu fyrir 3. Græna skrefið sitt og er því komin lengst allra skóla í verkefninu. Einkunnarorð skólans eru frumkvæði, sköpun og áræði og má með sanni segja að þau standi undir þeim í umhverfisstarfi skólans.

Nemendur í námskeiðinu Drasl eða djásn

Í úttekt Umhverfisstofnunar mátti sjá að skólinn horfir bæði til sinna beinu umhverfisáhrifa með það að marki að draga úr þeim en leggur einnig mikið uppúr umhverfisfræðslu í kennslu sinni. Slík fræðsla getur skilað sér margfalt út í samfélagið enda fara nemendur frá skólanum með dýrmæta þekkingu sem þeir nýta vonandi til að hafa jákvæð áhrif á sína framtíðar vinnustaði, skóla o.s.frv.

Það er orðin eðlilegur hluti af lífinu í skólanum að rekast á róbot á kaffistofunni eða ganginum

Í skólanum í vetur var til dæmis námskeið sem bar nafnið Drasl eða djásn, en þar nýtti kennarinn bakgrunn sinn sem vöruhönnuður til þess að fá nemendurna til að skapa nothæfa hluti úr einhverju sem annars hefði lent í ruslinu. Að auki má nefna kúrsinn Úrgangslist þar sem nemendur búa til list úr rusli og að kennarar eru duglegir að gera umhverfistengd verkefni í kúrsum sem í raun snúast um annað eins og stærðfræði, líffræði, ensku eða félagsfræði.

Í úttektinni var gaman að sjá hve langt skólinn er kominn í fjarvinnu og hversu eðlilegur hluti af lífinu á kennarastofunni var að hitta róbot á spjalli en hann nýta þeir kennarar sem ekki eru á staðnum, t.d. kennari sem býr í Gautaborg.