Lagafrumvarp sem tekur á plastvandanum

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur kynnt í samráðsgátt stjórnvalda drög að breytingum á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. „Verði frumvarpið að lögum munu nokkrar algengar gerðir af plastvörum verða bannaðar á Íslandi. Þetta eru t.d. plastdiskar, plasthnífapör, plaströr og bollar úr frauðplasti. Við getum svo vel notað aðra hluti í staðinn. Frumvarpsdrögin gera líka ráð fyrir að einnota plastbollar og -matarílát sem maður fær t.d. á skyndibitastöðum megi ekki lengur vera ókeypis“, segir Guðmundur Ingi, umhverfisráðherra. Í frumvarpinu er einnig kveðið á um sérstaka merkingu sem tilteknar einnota plastvörur eiga að bera um meðhöndlun vörunnar eftir notkun og þau neikvæðu áhrif sem varan hefur berist hún út í umhverfið.

Með frumvarpinu er innleidd ný Evróputilskipun en henni er ætlað að koma í veg fyrir og draga úr umhverfisáhrifum af tilteknum plastvörum og áhrifum þeirra á heilsu fólks. Ákvæðum tilskipunarinnar er fyrst og fremst beint að þeim plastvörum sem finnast helst á ströndum en mælingar hafa sýnt að rusl á ströndum í Evrópu er að 80-85% plast og þar af eru einnota plastvörur 50% og hlutir tengdir veiðum 27%. Tilskipuninni er ætlað að styðja við myndun hringrásarhagkerfis og efla úrgangsforvarnir með því að styðja við notkun sjálfbærra og endurnotanlegra vara, fremur en einnota vara. Við hvetjum þá sem láta sig málið varða að senda inn umsögn á samráðsgáttina, en frestur til þess rennur út þann 16. janúar næstkomandi.

plastpoki